Mímir - 01.06.2005, Síða 67
lögð áhersla á siðaboðskap eins og var áberandi
í barnaefni undir lok 19. aldar heldur fremur
gamansemi og lífsgleði.3
Bernskuminningar fullorðinna komu fram um
svipað leyti og nýju ævintýrin. Megineinkenni
þeirra voru að þær voru yfirleitt í smásöguformi, oft
gamansamar líkt og langir brandarar og hverfðust
um eina aðalpersónu. Þær gerast á ákveðnum
stað og tíma og lýsa hversdagslífi barna, eru oft
skemmtilega skrifaðar, spennandi og fyndnar en
lýsa jafnframt Ijúfsárri þrá eftir horfnum tíma og
áhyggjuleysi æskuáranna. Einn af þeim höfundum
sem skrifað hafa bernskuminningar sínar er Jón
Trausti sem skrifaði Jólasögu úr sveitinni í tímaritið
Fanney árið 1905. í sögunni er því stílbragði beitt
að láta börn segja frá því sem þau sjá og heyra
án þess að skýra hvað fram fer, sjónarhornið er
barnsins sem skilur hlutina á sinn hátt.
Prakkarasögur á borð við bækurnar um Gvend
Jóns sem fjallað verður nánar um síðar telur
Silja Aðalsteinsdóttir vera ákveðna tegund af
bernskuminningum.4 Yfirleitt er um strákasögur
að ræða og þær einkennast gjarnan af hraða og
spennu. Þó að höfundar hirði sjaldan um að sýna
lífshætti og tíðaranda með beinum hætti kemur
það oft fram í samtölum og lýsingum á mönnum og
málefnum. Sögurnar eru settar fram í smásöguformi
og fylgja ekki tímaröð en staðarhættir eru
nokkuð skýrir þar sem aðalsöguhetjurnar eru
Vesturbæingar og umhverfi þeirra er vel lýst í
bókunum. Strákarnir eiga í stöðugu stríði annars
vegar við höfuðóvinina í Austurbænum og
hinsvegar við yfirvaldið hann Þorvald pólití en þeim
stríðsátökum er iðulega lýst á gamansaman hátt.5
Samtímis því að gefnar voru út bernskuminningar,
ævintýri og kraftaverkasögur komu einnig fram
hvunndagssögur þar sem samtíminn rataði inn í
barnabækurnar. Skrifaðar voru sögur úr daglegu
lífi í borg og sveit þar sem bæjarsögurnar voru
gjarnan samtímalegar en sveitasögurnar höfðu
óljósari sögutíma. Upp úr 1930 hafði raunsæið
haldið sína sigurgöngu í barnabókum og tengist
það kreppunni öðru fremur. Á sama tíma var gerð
bylting í skólamálum og markviss endurskoðun
og endurnýjun á kennslumálum var einkennandi
fyrir tímabilið. Austurbæjarskóli varð miðstöð
þessarar byltingar og bæði skólastjórinn Sigurður
Thorlacius og kennararnir sem þekktir voru fyrir
róttækar stjórnmálaskoðanir urðu þess valdandi
að átak var gert í barnabókaútgáfu hérlendis. Stór
hluti kennaraliðsins skrifaði bókmenntir fyrir börn
eða þýddi úr erlendum tungumálum í hjáverkum.
3 Lazarus trá Tormes. Eftirmáli Guðbergs Bergssonar
þýðanda 1972, bls. 106.
4 Lazarus frá Tormes. Eftirmáli Guðbergs Bergssonar
þýðanda 1972, bls. 117.
5 Silja Aðalsteinsdóttir 1981, bls. 118.
Mörg þessara verka innihéldu féiagslegan
boðskap með sálrænum og félagslegum átökum,
fjallað var um stéttajafnrétti, kynjajafnrétti og
sífellt flóknara iðnþjóðfélag.6 Meðal annars var
boðskapurinn sá að einstaklingurinn átti að virða
eigin stétt hvort heldur sem hann reyndi að vinna
sig upp úr henni eður ei. Samúðin er gjarnan með
þeim sem minnst mega sín sem er alveg í anda
kreppubókmenntanna. Það er einkennandi fyrir
barnabækur þessa tímabils sem oft hefur verið
nefnt „gullöldin" í barnabókaútgáfu hérlendis, að
höfundar þeirra leitast við að greina og skoða
íslenskt samfélag fyrir og eftir ritunartíma bókanna.
Skáldsögur þeirra eru raunsæjar og í þeim er tekist
á við ýmislegt sem betur mætti fara og beint eða
óbeint bent á úrlausnir.
Allt frá tímum upplýsingar hefur barnabókum
umfram annað verið ætlað að þjóna þeim
tilgangi að hafa fræðslu- og uppeldisgildi en
jafnframt að vera skemmtilegar hvort heldur
var um að ræða sveita- og borgarsögur eða
skáldsögur handa börnum. Borgarmyndun á
íslandi var hröð á þessum tíma og mikið um
flutninga landsbyggðarfólks á mölina með aukinni
tæknivæðingu samfélagsins. Þetta leiddi til
stéttabaráttu sem barnabókahöfundar þessa tíma
voru meðvitaðir um og þeir vildu bjóða börnum
skáldsögur sem höfðuðu ekki síst til barna af
lágstéttunum og með persónum sem þau geti
samsamað sig.7 Þessi börn áttu foreldra sem
yfirleitt voru bæði útivinnandi og þurftu þau að
sjá um sig sjálf eins og hafði tíðkast í sveitinni en
var ekki jafneinfalt mál í borginni. Ýmis félagsleg
vandamál tengdust líka lífinu í borginni, svo sem
atvinnuleysi og óregla sem var mun sýnilegri
þar. Veruleikinn var einfaldlega allt annar í þessu
nýja umhverfi og barnabókahöfundar voru einnig
meðvitaðir um það.8
Á árunum eftir stríð jókst mjög útgáfa á
barnabókum, bæði íslenskum og ekki síst þýddum
afþreyingarbókum sem fljótlega höfðu betur í
samkeppninni við innlenda markaðinn. Þær bækur
sem gefnar voru út voru til dæmis skáldsögur Enid
Blyton, Beverly Gray-bækurnar, Benna-bækurnar
og fleiri slíkir flokkar. Þetta voru fjöldaframleiddar
seríubækur svokallaðar sem urðu fljótt allsráðandi
á markaðnum. Innlendum höfundum leist ekki á
blikuna og fannst efni þýddu sagnanna eiga lítið
erindi til íslenskra barna og unglinga.9 Þrátt fyrir
það dró ekkert úr flóðinu og megnið af útgefnum
barnabókum frá þessu tímabili eru dæmigerðar
afþreyingarbækur. Of langt mál er að fjalla um þann
fjölda íslenskra afþreyingabóka sem voru gefnar út
6 Silja Aðalsteinsdóttir 1981, bls. 150-151.
7 Silja Aðalsteinsdóttir 1981, bls. 150-51
8 Dagný Kristjánsdóttir væntanlegt, bls. 123-124.
9 Silja Aðalsteinsdóttir 1981, bls. 244-245.
65