Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 2020, Side 32
31
Vísnakver dregið í dagsljós
til Péturs Guðjohnsen í Vopnafirði, 1885.“
„Vísan Á alþingi að sitja mér aldrei var hent“,
er úr bréfi til Júlíusar Hafstein amtmanns.
Þorsteinn flutti frá Danmörku til
heimalandsins 1896 og settist að á Seyðisfirði,
þá þjóðkunnugt skáld. Páll Ólafsson bjó að
kalla í næsta nágrenni, í Nesi í Loðmundarfirði
og átti margar ferðir á Seyðisfjörð. Þorsteinn
verður vinur skáldsins við fyrstu samfundi. Öll
hin fögru, ómþýðu ljóð Páls er skipuðu honum
í röð þjóðskálda voru þá ort. Hann sótti þá
enn fram í sterkum, áhrifamiklum ljóðum þar
sem hann tjáði hug sinn allan. Honum hefur
verið það mikils virði að eignast sálufélaga í
Þorsteini. Báðir áttu þeir áþekk ljóð að mýkt
og fegurð og frjálshyggja Þorsteins hefur
ekki verið andstæð Páli. Gott dæmi þess er
ein vísna hans í kverinu:
Djöflatrúin deyr nú senn,
drjúgum farin að hnjóta,
þó eru ennþá merkismenn
sem mæla henni allt til bóta.
Í þessum samskiptum yrkir hann ljóð sem
hann nefnir Trúarjátning:
Þorsteins trúna þríf ég stundum,
þó er ég ætíð skynsamastur,
en þegar ég tala á þjóðarfundum,
þá er ég ætíð vanafastur.
Ef að ég er uppi í sveitum,
eða svana á förnum vegi,
í kvennafari og kolluleitum,
kenni ég sitt á hverjum degi.
Ef ég er til reiði reittur
og reiðin snýst svo upp í gaman,
verð svo hræddur, hryggur, þreyttur,
hringla ég öllum trúnum saman.
Hug sinn til Þorsteins tjáir hann í ljóðinu,
Til Þorsteins Erlingssonar:
Vertu hjartans velkominn,
vina bestur minna.
Engan þráir muni minn
meira en þig að finna.
Þegar ég ber hausinn hallt,
horfinn öllum vinum,
mér þú varst í öllu allt,
engum líkur hinum.
Hjarta þitt er hlýtt og gott,
hafnar öllu táli,
opinskátt og segir satt,
svona hefur þú reynst Páli.
Tvö samstæð erindi í kverinu kynnu að vera
tengd samfundum þeirra Þorsteins og Páls er
þeir áttu orðið heimili í Reykjavík:
Nú þarf ekki að byggja bæ,
bara lítinn kofa,
afskekktan, sem í ég fæ
eilíflega að sofa.
Þar ég skyldi, Þorsteinn kær,
þiggja í bóli mínu,
eina vísu, eða tvær,
innst úr hjarta þínu.
Það bar heim að Þorsteinn flutti aldamótaárið
1900 til Reykjavíkur og Páll og Ragnhildur
fluttu frá Nesi norður að Presthólum í Norður
- Þingeyjarsýslu til sr. Halldórs Björnssonar
bróður Ragnhildar. Þorsteinn átti skamma
dvöl vestur á Bíldudal en árið 1902 flutti
hann til Reykjavíkur og bjó sér þar fagurt
menningarheimili með sinni ágætu eiginkonu,
Guðrúnu J. Erlings. Guðrún var frá Kotlaugum
í Hrunamannahreppi og var 20 árum yngri
en Þorsteinn. Hann segir í vasakverinu
skemmtilega frá því hversu sterklega Guðrún
tók svari hans, honum að öllu ókunn nema frá
ljóðalestri, hún þá um fermingu „þegar var
verið að skíta mig eitthvað út.“