Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 2020, Qupperneq 99
98
Múlaþing
myndir hefðu getað vakið hjá honum áhuga
á að veita þeim lið sem voru órétti beittir og
þar sem hann hefur átt nokkrum vinsældum
að fagna vegna frama síns og haft stuðning
bræðra sinna, hefur honum tekist að afla mál-
stað Þorbjörns svo mikils fylgis þar á þinginu
sem raun varð á. Það verður að hafa í huga,
að höfundur Hrafnkötlu er Austfirðingur og
ólíklegt að hann hafi vitað gerla hverjir voru
á Alþingi þetta ár. Nú var Austurland lengst
af afskekktast allra fjórðunga og því ekki
ólíklegt að fréttir af Alþingi og atburðum Suð
-Vestanlands væru farnir að gangast nokkuð
í munni, er þangað komust. Fæ ég ekki séð,
að kippt sé fótum undan öllum sagnfræði-
legum grundvelli sögunnar enda þótt eitthvað
hefði brenglast í meðförum, nöfn, ætterni
velgjörðarmanna þeirra Þorbjörns og Sáms.
Þá er næst að taka til athugunar annað
meginatriði kenninga Sigurðar, en það er
að ekkert rúm hafi verið fyrir mannaforráð
Hrafnkels á Héraði. Landnáma segir svo frá
að Brynjólfur hinn gamli, sonur Þorgeirs Vest-
arssonar ,,…næmi Fljótsdalinn allan fyrir ofan
Hengiforsá fyrir vestan, en fyrir ofan Gilsá
fyrir austan, Skriðudal allan ok svá völluna út
til Eyvindarár ok tók mikit af landnámi Una
Garðarsonar ok byggði það frændum sínum
og mágum…“.
Afkomendur Brynjólfs voru margir og
er talið að þeir hafi farið með goðorð, t.d.
segir Landnáma að hann gæfi Ásröði, sem
átti stjúpdóttur hans og bróðurdóttur, öll lönd
milli Gilsár og Eyvindarár sem mundi hafa
verið kjarninn í goðorði Hrafnkels. Í fljótu
bragði virðist því fremur lítið pláss fyrir goð-
orð Hrafnkels á þessum slóðum.
Nú liggur það ljóst fyrir að mannafor-
ráð til forna voru engum landamörkum háð.
Atkvæðamenn gátu áunnið sér mannaforráð
hvar sem þeir voru. Er þá ekki ósennilegt að
auðæfi hafi skipt talsverðu máli og goðinn
hafi getað keypt sér þingmenn. Nú segir sagan
að eftir komu Hrafnkels í Fljótsdal hafi ,,..
lagst veiðr mikill í Lagarfljót…“ og hann hafi
auðgast vel. Er því ekki ólíklegt að það hafi
hjálpað honum að komast til mannaforráða
á nýjan leik, auk þess að ljóst er að hann var
vel til foringja fallinn.
Benda má og á það, að ekki er óhugsandi,
að einhverjir af þingmönnum hans í Jökul- og
Hrafnkelsdölum hafi reynst honum trúir og
Séð út Hrafnkelsdal, Eyvindarfjöll og Fjallaskarð til hægri, í fjarska sér til Dyrfjalla. Ljósmyndari og eigandi
myndar: Skarphéðinn G. Þórisson.