Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 2020, Qupperneq 111
110
Múlaþing
Ritfregn
Hofströnd
Á árunum í kringum 1940
Útgefandi og höfundur: Sigmar Ingason.
Útlit: Jón Oddur Guðmundsson
Prentun: Litróf.
Æskustöðvarnar verða mönnum löngum kærar og minnisstæðar, jafnvel þó æviárum sé
eytt á fjarlægri slóð. Margir reyna að halda í minningarnar, sumir, kannski flestir, vilja
skila minningum sínum til eftirlifandi kynslóða, ef þar skyldi leynast eitthvað sem eft-
irkomendum skyldi vera til fróðleiks eða skemmtunar.
Sigmar Ingason er fæddur árið 1930 og varð því níræður á því herrans ári 2020. Hann var uppalinn
á Hofströnd í Borgarfirði eystra. Í bókinni, sem ber nafn bæjarins, rifjar hann upp hvernig þar var
umhorfs á uppvaxtarárum sínum, árum sem óðum fyrnist nú yfir í lifandi vitund fólks. Meginefni
bókarinnar og það merkasta helgar hann lýsingu á húsakosti að Hofströnd á árunum 1940–1945,
sem mátti segja góðan á íslenska sveitavísu.
Einnig segir hann frá fólkinu á bænum, fósturforeldrum sínum og öðru fólki sem þar lifði og
starfaði, ættingjum og öðrum. Vinnubrögðin við búskapinn voru gamla tímans, hestar voru einu
flutningatækin, útihús voru dreifð um tún til að auðvelda vetrarbeit. Örlítið var fengist við útgerð
þar sem jörðin liggur að sjó, en bæjarhúsin voru nýrrar aldar. Gamli torfbærinn hafði fengið nýtt
hlutverk og nýi tíminn var ekki langt undan.
Sigmar er vel ritfær og lýsir vel þessum uppvaxtarárum, einkum umhverfinu og þó sér í lagi
húsakynnum heimilisfólksins. Er lýsing hans sums staðar svo nákvæm að furðu gegnir að hann hafi
geymt það í minni sínu í hartnær 80 ár. Reyndar segir hann að hann hafi fyrir alllöngu verið byrjaður
á skráningunni, þannig hefur hann haldið til haga því sem hugsanlega væri með öllu gleymt í dag.
Í bókinni eru glöggar grunnteikningar af bæjarhúsum sem sýna húsaskipan og einnig af inn-
réttingum, svo sem hillum, skápum, rúmum, koffortum, tunnum fyrir súrmat og saltkjöt, og svo
mætti lengi telja. Hægt er að fullyrða að óvíða sé að finna svo nákvæma lýsingu á innbúi í sveit á
stríðsárunum eins og fram kemur í Hofstrandarbók Sigmars.
Steinhúsið á Hofströnd var byggt 1904 og er því eitt af fyrstu steinhúsum sem byggt er í sveit
hér austanlands. Þá bjó á Hofströnd Sigfús Gíslason og segir Sigmar nokkuð frá honum í bókinni.
Sigfús sá hefur verið hörkuduglegur, hagsýnn og talsvert ráðríkur, jafnvel eftir að aðrir voru teknir
við jörðinni. Sigmar nefnir hins vegar ekki konu Sigfúsar, Herborgu Halldórsdóttur, enda var hún
dáin fyrir hans minni.
Tvær sögur úr lífinu á Hofströnd frá þessum árum lífga upp á efnið og segja frá því sem hent
gat unglinga á þessum árum.
Þó að bókin sé ekki ýkja þykk, aðeins 86 blaðsíður í kiljuformi, er augljóst að höfundur hefur
lagt í hana mikla vinnu og er útlit og prentun ágætlega unnið. Hins vegar hefði mátt vanda próf-
arkalesturinn betur svo gagnmerkt sem sumt af efninu er.
Óhætt er að mæla með riti þessu fyrir þá sem vilja halda til haga fróðleik um fyrri tíð. Þó að
sögusviðið sé þröngt er frásögnin lifandi og gefur glögga mynd af lífinu á meðalbúi við sjávarsíðuna
á Austurlandi í lok kreppu og við dagrenningu nýrra tíma.
Sigurjón Bjarnason.