Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 2020, Síða 146
145
„Sér hún hátt og vítt um veg“ - hinsta hvíla konu frá 10. öld á Vestdalsheiði.
Perlur hafa einnig verið notaðar til að greina
kyn í gröfum, þó að dæmi hafi einnig fundist
um perlur í gröfum karlkyns einstaklinga
og perlur finnast nánast til jafns í kumlum
karla og kvenna á Íslandi (Hickey, 2014,
bls 36, Elín Ósk Hreiðarsdóttir, 2005a, bls.
181). Einnig hafa glerperlur fundist í gröfum
karlkyns einstaklinga í Bretlandi (t.d. gröf
511 að Repton), Írlandi, Svíþjóð (Gotlandi),
Rússlandi (Staraya Ladoga) og Íslandi, en
perlurnar eru þá fáar, ekki fleiri en þrjár
(O‘Sullivan, 2015, bls 74-77).
Út frá fornleifarannsóknum í Skandinavíu,
til að mynda í Birka í Svíþjóð, er hægt að
draga þá ályktun að konur á víkingaöld hafi
klæðst tveimur til þremur lögum af fötum úr
margskonar efni. Innst var oft undirkyrtill, úr
hör (e. linen), eða ull og stundum skreytt með
silkiborðum, með síðum ermum, stundum
faldaðir í hálsinn og festir þar saman með
lítilli kringlóttri nælu. Yfir kyrtlinum var
oft síðerma kjóll, oft úr ull, sem náði undir
handarkrika, festur með böndum á sitthvorri
öxlinni, nældur saman með einni eða tveimur
brjóstnælum. Klæðin voru stundum skreytt
með dýraskinnum. Brjóstnælur töldu ein-
kenna kvenklæðnað frá níunda og fyrsta hluta
tíundu víkingaaldar. Þær voru ekki einungis til
skrauts því þær gegndu því hlutverki að halda
klæðnaðinum uppi. Aðrar nælur, svo sem
þríblaðanælur og hringnælur, voru aðallega
notaðar til að festa saman ytri klæði, svo sem
sjal eða skikkju. (Bau, 1981; Ewing, 2006, bls.
26-52; Geijer, 1979; Jesch, 1991, bls. 14-18;
Jesch, 2015, bls. 94-97, Hayeur Smith, 2015,
bls. 26-27, 2003a bls. 253-254, Hägg, 1974).
Fimm nælur fjallkonunnar (tvær brjóstnælur,
kringlótt næla, þríblaðanæla og hringnæla)
má því túlka sem vísbendingu um að hún
hafi verið vel búin, þ.e. í undirkyrtli, kjól og
með skikkju eða sjal utan yfir sig. Samkvæmt
rannsókn á kvengröfum frá víkingaöld með
textílleifum í Noregi hafa fundist yfir fjögur
hundrað textílbútar úr unninni ull í tuttugu
og fimm gröfum (Holm-Olsen, 1975, bls.
197, 204). Rannsóknir á klæðum kvenna og
karla í gröfunum í Birka hafa sýnt að um 60%
textíla í kvengröfum eru úr hör, restin er úr
fínunninni ull. Í karlgröfum í Birka er nánast
einungis að finna ullarklæði úr grófunninni
ull (Ewing, 2006, bls. 35). Föt úr ull virðist
því hafa verið nokkuð hefðbundinn klæðnaður
á víkingaöld og kvenföt gerð úr fíngerðari
efnum en karlföt.
Áhugaverðar rannsóknir á brjóstnælum
konu sem heygð var í Ketilsstaðakumlinu
svokallaða að Litlu-Ketilsstöðum í Hjalta-
staðaþinghá, Austurlandi, sýnir hvernig konur
voru klæddar á víkingaöld. Konan klæddist
síðri undirskyrtu eða kjól úr hör, yfir honum
dökkblárri svuntu eða skokki úr ull, skreyttri
að ofan með spjaldofnum borða. Að auki var
hún með slá eða sjal úr ullarvaðmáli (Hayeur
Smith, 2015, bls. 31-39). Sýni úr tönn kon-
unnar úr Ketilsstaðakumlinu sýndi (leiðréttur
aldur út frá hafrænum áhrifum) að konan hafi
dáið undir lok fyrsta fjórðungs tíundu aldar,
líklega á tímabilinu 915–925 e. Kr. (Smith,
2015, bls. 38-42).
Þó að ekki sé hægt að segja með vissu
í hvernig fötum „fjallkonan“ klæddist á
sínum hinsta degi gefa skartgripir ákveðna
vísbendingu um hvernig fötin gætu hafa
verið. Kringlótta nælan gefur til kynna að hún
gæti hafa verið í undirkyrtli, brjóstnælurnar
tvær gætu bent til þess að hún hafi verið í
hefðbundnum ullarkjól og þríblaðanælan og
hringnælan að hún hafi verið með slá eða
sjal (gæti hafa verið fest ofan á herðum).
Ennfremur gefur greiningin á hári úr járn-
broti sem fannst á vettvangi og er talið hafa
verið úr þorni annarrar brjóstnælunnar til
kynna að „fjallkonan“ hafi verið í ullarkjól.
Allar perlurnar gætu hafa verið bornar sem
„steinasörvi“, í sjö eða áttlaga festi á milli
brjóstnælanna tveggja eða 170 cm langri
hálsfesti.