Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 2020, Blaðsíða 158
157
Þ
Basl
Um listsköpun á Seyðisfirði á fyrri hluta 20. aldar
Halldór Vilhjálmsson
Þau gengu snemma dags út eftir Háu-
bökkum á leið út á Vestdalseyri, héldu
á burðarnetum með skissublokk, kross-
viðarspjöldum, litlum flötum kössum með
olíulitum, höfðu líka meðferðis strigabúta,
pensla og palettur. Það var síðsumarssól hátt
á lofti, himinninn heiðskír og fremur hlýtt
í veðri þrátt fyrir örlitla utangolu. Árið var
1933. Listmálararnir Gunnlaugur Scheving
og kona hans Grete Linck voru þennan dag
sem oftar á leið í vinnuna. Úti á Vestdalseyri
klifu þau brekkuna upp á Hjalla, þaðan sést
vel út fjörðinn, Seyðisfjarðarflóa og allt út í
hafsauga; Brimnes að norðanverðu Skálanes
sunnan megin. Þau fundu sér hentugan stað
uppi á Hjalla til að setjast niður og hefjast
handa við að vinna úr því sem augað sá: sjór-
inn virtist sem bráðið silfur á að líta, snar-
brött fjöllin spegluðust í lognkyrrum sænum,
eitt og eitt fiskiskip sigldi framhjá á leið á
miðin. Slíkir sumardagar eru ekki sjaldgæfir
á Seyðisfirði. Málararnir gerðu fyrst allmargar
skissur af firðinum, af þorpinu á Vestdalseyri
fyrir neðan og af sérkennilegum klettamynd-
unum við Vestdalsá og upp við Foss. Þau
kíktu með pírðum augum á myndefnið, mældu
fjarlægðir með útglenntum fingrum, tóku inn
á sig litbrigði náttúrunnar og reyndu að finna
nokkra tilsvörun í litakössunum. Þau voru að
lengi dags.
„Ég man vel eftir því þegar þessi mynd
var máluð,“ sagði Grete Linck þegar hún
dvaldi í Fellabæ um 50 árum síðar og virti
fyrir sér málverkið frá Seyðisfirði. „Gunn-
laugur lauk við að mála myndina þarna
uppi í Vestdal. Ég málaði líka sama mótív
þennan dag. Þegar við svo héldum sýningu
á ca. 20 málverkum á Seyðisfirði skömmu
síðar voru þessar fjarðarmyndir þar með.
Mín mynd seldist ekki.“
Gunnlaugur og Grete höfðu kynnst þegar þau
voru við nám í Konunglegu listaakademí-
unni í Kaupmannahöfn á árunum 1926–1930.
Þau giftust á Seyðisfirði 1932 og settust að í
bænum sem starfandi listmálarar. Efnahagur
þeirra var ekki beysinn; þau tóku á leigu litla
íbúð utarlega í kaupstaðnum. Á Seyðisfirði
bjuggu þau í fjögur ár við heldur þröngan
kost, fluttu til Reykjavíkur 1936 en bjuggu
þar þó aðeins í rúm tvö ár saman.