Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1925, Page 27
25
stór býli. En sleppa verður þeim er börðust til landa, keyptu bygð
býli eða komust yfir þau á annan hátt, nema þeir hafi líka numið
eitthvað óbygt. En að greina þessa alla sundur með nákvæmni, það
væri bæði mikið verk og vandasamt, því vafastaðir eru mjög margir.
Aftur væri rétt í þrengri merkingu, að telja þá eina lnm., sem
námu í fyrstu alt, er þeir komust yfir. Og þó verða þar líka margir
vafasamir. En ég held að þeir færu valla að mun yfir 150.
Útgefendur Landnámu hafa reynt að fara meðalveg þarna á milli,
og þeir hafa víst orðið varir við erfiðleika í aðgreining sinni. í al-
þýðuútgáfunni 1891 eru taldir með nöfnum í registrinu 312 lnm.
Þeir eru taldir eftir auðkendum nöfnum í reg. útg. frá 1843, og vant-
ar þó fáeina. Tala þessi er tekin svo af handahófi, að hún verður
ekki lögð til grundvallar við neina nákvæma rannsókn. Taldir eru
þar nokkrir vafasamir lnm., en mörgum slept, sem voru meiri háttar.
Þessu til sönnunar skal eg nefna hér fáeina. Þrælar Ketils gufu,
Flóki og Skorri1) og Þorgils knappi, leysingi Kolls, eru taldir Inm. Þó
er slept Vífli og Dufþak, og 3 leysingjum Skallagríms. Rauða-Björn
keypti land að Skallagrími. Hann er talinn lnm., en Án rauðfeldur
ekki. Án keypti þó líka óbygð lönd, var göfugrar ættar og átti
Grelöðu jarlsdóttur. Grímur enn háleyski á Hvanneyri, er að vonum
talinn lnm., þó Skallagrímur »gæfi« honum land (og líka Úlfur sonur
hans — og Úlfur víkíngur í Ln. 1843, en hvorugur 1891). Samt er
konungssonurinn Hámundur heljarskinn ekki talinn lnm., líklega af því
að svo er orðað í sumum handritum Ln. að Helgi magri »gæfi«
honum land. — Þó komu þeir út saman tengdafeðgarnir, og Hám.
sat þar eftir, sem Helgi vildi ekki vera.
Steinólfur, ókendur að ætt og lítt merkur, er talin með lnm. í
Borgarfirði, en þó hvorki Ingvar, tengdafaðir Skallagríms, né Þorfinnur,
tengdasonur hans, er hann »gaf« löndin líka; og hafa þeir síðarnefndu
valla verið minni háttar, að frá teknum mægðunum við Skallagrím.
í Iandnámi Hrollaugs Rögnvaldss. Mærajarls, á austfjörðum, eru
ótaldir í báðum útg. Ln. 5 lnm. Þeir hafa allir verið norrænir menn,
og er enginn bústaður þeirra kendur við þá, — 1 ónefndur.
Af þeim 40 mönnum, er námu land, keyptu og þágu að gjöf
eða tilvísan Skallagríms, í hans landnámi, eru um 30 taldir lnm.
Bólstaðir eru kendir við fullan helming þeirra allra. Þar á meðal
við alla vestmennina, er munu vera 6. Og 18 eru þar bústaða-nöfn
önnur en þeirra, er þar eru taldir.
1) Skorri ef til vill strokuþræll, því eg held vafasamt, að Ketill hafi átt
2 þræla með sama nafni. Alt, sem um þá er sagt í Ln., gæti verið tvöföldun
ýtaf missögnum um sama mann.
4