Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1977, Qupperneq 164
170
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
er gert upp með mel og sáu gamlir Álftveringar, sem kunnu þessa
byggingaraðferð frá fornu fari, um þakninguna. Gísli Gestsson hafði
umsjón með verkinu og tók hann heimildarkvikmynd af verkinu þar
sem vinnan við melþakið sést glöggt, en þetta hús er hið eina hérlend-
is, sem er undir melþaki. Smávegis leifar eru þó af melþaki í gömlu
setulofti á Hnausum í Meðallandi.
Á Keldum voru framhúsin, skemmurnar og hjallurinn, tekin ofan,
veggir endurhlaðnir eftir því sem þurfti og þakið að nýju. Einnig var
gamla fjósið austur á túninu og gömul rétt þar hjá hlaðin upp svo og
traðirnar. Sér nú fyrir endann á hinni miklu viðgerð gömlu húsanna
á Keldum.
Sjávarborgarkirkja í Skagafirði er sem nsest fullbúin á ytra borði,
en Gunnar Bjarnason dvaldist þar um haustið og sá um að ganga frá
klæðningu og einnig gerði hann við hurðina og smíðaði glugga á verk-
stæði sínu hér syðra.
Eitt mesta átakið var samt að reisa minna verslunarhúsið frá
Vopnafirði, Kjöthúsið eða Ullarhúsið svonefnda, á safnsvæðinu í Ár-
bæ. Húsið var reist austast og neðst í túninu, neðan við hverfi það af
gömlum Reykjavíkurhúsum sem þar hefur myndast. Bjarni Ólafsson
smiður sá um verkið, en mjög tafsamt og erfitt reyndist að lesa sam-
an viði og gera við þá sem skemmdir voru af fúa. Þurfti að endurnýja
allmikið af klæðningu og smíða nær alla glugga að nýju, en grindin
var mikið til heilleg. Er húsið að sönnu ekki fullbúið en tiltölulega
lítið er þó eftir, aðallega að ganga frá gluggum og hurðum svo og
umhverfi hússins. Hús þetta er gríðarlega rúmgott og vel viðað og
mjög gott dæmi um reisulegt verslunarhús á verslunarstað á 19. öld,
en húsið er talið reist árið 1866.
Unnið var að viðgerðum ýmissa annarra húsa úti um land, sem
ekki eru beinlínis á vegum safnsins en safnið hefur þó stuðlað að
beint eða óbeint að varðveitt yrðu.
Reykhólakirkjan gamla, sem tekin var ofan sumarið 1975 og sagt
var frá í síðustu skýrslu, var flutt vestur að Saurbæ á Rauðasandi,
en heimamenn höfðu þá endanlega ákveðið að taka við henni og end-
urreisa í sinni gömlu mynd. Safnið kostaði flutning viðanna vestur og
lagði með henni nokkra fjárupphæð, en Hannes Stígsson, sem tók
kirkjuna niður, annaðist uppsetningu hennar að nýju og komst hún
undir þak um haustið.
Möðruvallakirkja í Eyjafirði var loks tekin til viðgerðar og sá
Gunnar Bjamason um viðgerðina á vegum safnsins að mestu leyti, en
kirkjan er bændakirkja og þurfa aðstandendur hennar því meiri