Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1977, Qupperneq 168
FRÁ FORNLEIEAFÉLAGINU
AÐALFUNDUR 1976.
Aðalfundur Hins íslenzka fornleifafélags var haldinn föstudaginn 10. des. 1976
í fornaldarsal Þ.jóðminjasafns, og hófst hann kl. 8.30. Fundinn sóttu um 50
félagar og gestir.
Formaður Jón Steffensen setti fundinn og minntist síðan þeirra félaga, sem
frétzt hefur, að látizt hafi, síðan síðasti aðalfundur var haldinn. Þeir eru:
Birgir Kjaran hagfræðingur, Reykjavík.
Einar Guðnason prófastur, Reykjavík.
Freysteinn Gunnarsson skólastjóri, Reykjavík.
Jóhann Hannesson prófessor, Reykjavík.
Ragnar Jóhannesson skólastjóri, Reykjavík.
Símon Jóh. Ágústsson prófessor, Reykjavík.
Þorsteinn M. Jónsson bókaútgefandi, Reykjavík.
Formaður skýrði síðan frá félagafjölda, en hann er nú 796, aðeins meiri en á
síðasta ári. Árbók 1976 kvað formaður væntanlega á svipuðum tíma og vant er,
upp úr áramótum, og mætti búast við, að verð hennar hækkaði nokkuð í samræmi
við aukinn tilkostnað.
Þar næst las féhirðir reikninga félagsins fyrir árið 1975.
Einn fundarmanna, Sigurður Guðjónsson frá Eyrarbakka, bar síðan fram fyr-
irspurn um staura þá, sem varpað var fyrir borð sunnan við land á Þ.jóðhátíðar-
ári, svo og skip þau með gömlu lagi, sem gefin voru hingað til lands á sama ári.
Gísli Gestsson svaraði fyrirspurninni og kvað þessa hluti ekki vera á vegum forn-
leifafélagsins. Stefán Karlsson tók einnig til máls og skýrði frá tildrögum þess,
að umræddum staurum var varpað í sjó.
Þá gaf formaður fyrirlesara kvöldsins orðið. Forseti Islands, Kristján Eldjárn,
flutti erindi um kirkjutjald frá Vatnsfirði, steint léreftstjald úr Vatnsfjarðar-
kirk.ju með myndum 25 helgra manna. Tjaldið var í Vatnsfjarðarkirkju fram
á 18. öld og mun hafa verið 80—90 sm á hæð og sennilega rúmlega 14 m á lengd.
Teiknari Árna Magnússonar hefur dregið upp f.jórar myndanna á tjaldinu, af
Þorláki helga, Jóni helga, heilögum „Alavus“ (þ. e. sennilega Ólafi Tryggvasyni)
og heilögum „Olavus" (þ. e. Ólafi helga Haraldssyni). Kirkjutjaldið mun senni-
lega hafa verið gert í Niðurlöndum eða N.-Þýzkalandi um 1520, e. t. v. fyrir
frumkvæði séra Jóns Eiríkssonar í Vatnsfirði. Fyrirlesari taldi sennilegast, að
Magnús Einarsson hefði teiknað myndirnar fjórar fyrir Árna Magnússon.
Að loknu þessu stórfróðlega erindi, sem fundarmenn þökkuðu með lófataki,
urðu nokkrar umræður um efni þess, og fyrirlesari svaraði fyrirspurnum.
Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 10.30.
Jón Steffensen
Þórliallur Vilmundarson