Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1981, Qupperneq 1
SIGURÐUR ÞÓRARINSSON
BJARNAGARÐUR
„Forngróinn garður fer vel þar sem
hann smeygir sér inn í landslagið“
Kristján Eldjárn
Inngangur
Meðal þeirra fornu mannvirkja hérlendis, sem menjar hafa varðveist um, er
mikill fjöldi garðlaga af ýmsu tagi. Algengastar munu menjar túngarða, enda
tekið fram í Jónsbók, að ,,hver maður skal löggarð gera um töðuvöll sinn“.1
Brot af fornum túngörðum var að sjá við fjölda býla og sumsstaðar nær
óslitna garða, allt þar til tún tóku að teygjast út fyrir þessa garða upp úr ann-
ari heimsstyrjöldinni. Nú mun allur þorri þessara garða á byggðum bólum
horfinn í nýrækt, en meira eða minna heillega garða er enn að finna kringum
margar fornar bæjarrústir. Er allmarga slíka að sjá á uppdráttum Daniels
Bruun af eyðibýlum.2 Auk túngarða er að finna mikinn fjölda annarra garða
af ýmsu tagi víðsvegar um landið, þótt misdreifðir séu: hagagarða og aðra
vörslugarða, merkjagarða og göngugarða. Fornir garðar eru ekki bundnir við
byggðir, sumsstaðar er að finna mikil garðlög á heiðum uppi, líklega mest i
Suður-Þingeyjarsýslu.
Tiltölulega lítið hefur verið um könnun fornra garðlaga fram á síðustu ár.
Fornum varnargarði yfir Haukadal við Dýrafjörð er lýst í Árbók hins ísl.
fornleifafélags 1883 og hér og þar er minnst á garða í öðrum árgöngum árbók-
arinnar. Kr. Kálund nefnir garða á nokkrum stöðum, m.a. segir hann garð
liggja eftir miðri Fljótsheiði endilangri frá norðri til suðurs og vera um 5 mílur
(35-40 km) að lengd.3 Þorvaldur Thoroddsen fjallar stuttlega um forna garða
í Lýsingu íslands.4 Sem fyrr segir eru túngarðar sýndir á mörgum uppdráttum
Daniels Bruun af eyðibýlum, en hann gerði engar nánari kannanir á slíkum
görðum og lítið hafa garðar verið kannaðir fyrr en nú hin síðari ár, en það ber
vitni vaknandi áhuga á þessu fyrirbæri, að síðasta hálfa áratuginn hafa birst
þrjár merkar greinar um þetta efni. Kristján Eldjárn reið á vaðið með grein
sinni: Skagagarður — fornmannaverk, í Árbók Ferðafélags íslands 1977, en i
kjölfarið fylgdu kafli um garðlög í Svarfaðardal í bók Kristmundar Bjarna-
sonar: Saga Dalvíkur,5 og grein Páls Sigurðssonar frá Lundi um tvo forna
garða, Völugarð og Blákápugarð í Fljótum.6 Athyglisverð er eftirfarandi stað-
hæfing Kristmundar: „Naumast mun ofmælt, að garðlög í Svarfaðardals-