Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1981, Síða 54
58
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Áletrunin er með svörtu letri á rauðleitum grunni og undir áletruninni er á
báðum vængjum hnútur, ekki ósvipaður bókahnút frá Hólaprentverkinu á
þessum tíma.
Letrið er misstórt, hefur verið strikað fyrir línunum, bæði ofan og neðan,
þannig að allir stafir í hverri línu eru jafnháir og er eftirtektarvert, hve letur-
gerðin er fögur og jöfn, mjög nákvæmlega teiknuð undir málningu. Sést hér
enn betur, að hér hefur verið að verki listamaður, sem mikla kunnáttu hefur
haft í dráttlist.
Guðrún Eggertsdóttir í Bæ, sem greinilega lætur gera töfluna til minningar
um Björn mann sinn, svo og sjálfa sig, var fædd árið 1637. Hún hefur því ver-
ið 13 árum eldri en bóndi hennar, og varð háöldruð, lést árið 1724. Guðrún
var dóttir Eggerts sýslumanns ríka, Björnssonar í Bæ og Skarði á Skarðs-
strönd, en Björn, maður hennar, var sonur Gísla sýslumanns á Hlíðarenda
Magnússonar (Vísa-Gísla). Björn stundaði skólanám hér heima og erlendis,
gerðist sýslumaður í Barðastrandarsýslu 1674 og bjó í Bæ. Það ár kvæntist
hann Guðrúnu og hefur fengið jörðina með henni. Hann lést aðeins fjórum
árum síðar, úr sárasótt að því er talið er, og varð Guðrún kona hans blind í
veikindum manns síns. Börn þeirra dóu nýfædd og eru engir afkomendur frá
þeim komnir.1
Björn þótti harðdrægur og þau hjón bæði. Guðrún varð geysileg eigna-
manneskja, átti fjölda jarða þar vestra og hafði umboð annarra. Hún hafði
mörg skip á útvegi í verstöðvum vestra, svo sem best sést í Jarðabók Árna
Magnússonar og Páls Vídalíns, þannig að aðrir máttu vart út gera úr sumum
verstöðvum. Virðast henni, þótt blind væri, hafa opnast allar leiðir til fjár-
öflunar og ríkidæmis.
Ekki sést, hvenær Guðrún lætur gera töfluna. Eru skildar eftir eyður fyrir
dánarári hennar og aldursárum, en einnig sést, að listamaðurinn hefur ekki
vitað fæðingarár hennar með vissu og því ekki sett síðasta stafinn.
Minningartaflan er komin úr Saurbæjarkirkju til Þjóðminjasafnsins, svo
sem fyrr segir. Er því næst að ætla að hún hafi verið í kirkjunni alla tíð og eign
hennar, en einkennilegt er, að hennar er ekki getið í vísitasíum fyrr en alllöngu
eftir dauða Guðrúnar. í hinum afarnákvæmu vísitasíum Þórðar biskups Þor-
lákssonar 1683, Jóns biskups Vídalíns árið 1700 og 1710 og Jóns biskups
Árnasonar 1725 og aftur 1733 er töflunnar hvergi getið, og er hún þó örugg-
lega að ætla má gerð fyrir þann tíma er Jón Árnason vísiterar, þar eð Guðrún
deyr 1724.
Það er fyrst í prófastsvísitasíu 27. ágúst 1750 sem töflunnar er getið, svo
öruggt virðist, en þá segir: „Vængjabrík yfir kórdyrum með olíufarfa“, en
altaristöflu er hvergi getið. Hannes biskup Finnsson lýsir töflunni fyrst svo