Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1981, Síða 55
MINNINGARTAFLA
59
óyggjandi sé í vísitasíu 2. ágúst 1790: „Altarisvængjabrík með máluðum list-
um og portraitum Björns Gíslasonar og Guðrúnar Eggertsdóttur“. Hér virðist
hún því komin yfir altari.2
Það, að töflunnar er ekki getið fyrr er því einkennilegra, sem Guðrún hefur
gefið kirkjunni fjölda gripa, altarisdúk, rykkilín, skírnarfat, klukku (sem
steypt var upp úr annarri gamalli), og færir Jón biskup Vídalin henni lof-
semdarþakkir fyrir í vísitasíu 22. september 1710.3
Skýringin gæti líklegast helst verið sú, að kirkjan hafi upphaflega alls ekki
átt mininngartöfluna, heldur hafi Guðrún talið hana séreign sína, jafnvel þótt
hún kynni að hafa verið höfð i kirkjunni.4 Eftir andlát hennar, þegar skipti
fara fram og afkomendur þeirra hjóna eru engir, er ekkert líklegra en að erf-
ingjar, sem voru þá útarfar, hafi ákveðið að gefa kirkjunni töfluna, enda talið
hana best niðurkomna þar í kirkjunni.
Þetta er í rauninni ekki stórt atriði viðvíkjandi þessari minningartöflu, hitt
er meira um vert að reyna að skyggnast eftir, hver gert hafi hana svo ágætlega
sem raun ber vitni.
Telja verður víst, að taflan sé íslensk. Það sést best á áletrununum undir
myndunum innan á vængjunum, sem eru á íslensku. Að vísu eru til danskar
altaristöflur frá fyrri timum með íslenskum áletrunum, en þá eru oftast nær
fleiri eða færri ritvillur sem segja til, að málarinn hefur ekki skilið hvað hann
var að skrifa heldur haft áletrunina uppskrifaða fyrir sér og auðveldlega orðið
á smáskyssur.
Þegar litast er um i heimi íslenskra listamanna þessa tíma er sannarlega ekki
í marga staði að líta. Verður fyrst fyrir manni nafn séra Hjalta Þorsteinssonar
prófasts í Vatnsfirði, sem er líklegast eini listamaður þeirra tíma, sem nam er-
lendis fagrar listir, enda skaraði hann langt fram úr fyrri tíðar mönnum, sem
fengust við málaralist eða höggmyndalist (útskurð). Virðist enda svo, að aðrir
listamenn komi vart til greina til að geta gert töflu sem þessa.
Séra Hjalta og list hans hafa verið gerð skil víða, og skal einkum bent á
grein Matthíasar Þórðarsonar í íslenskum listamönnum, I,5 og greinar Krist-
jáns Eldjárns í Ársriti Sögufélags ísfirðinga 1978.6 Viðbúið er þó, að eitthvað
kunni enn að koma í ljós af verkum, sem örugglega megi eigna séra Hjalta,
svo afkastamikill listamaður sem hann hefur verið, og er þó margt týnt og
tröllum gefið af verkum hans. En séra Hjalti hafði framast i Kaupmannahöfn
og lært þar málaralist, höggmyndalist, hljóðfæraslátt og söng, í rauninni allar
þær fagrar listir, sem þá stóð til boða að læra. Og slíkur var listaáhugi séra
Hjalta, að hann virðist hafa gert myndir án tilefnis, til dæmis mannamyndir
án sérstakrar beiðni.
En niðurstaða um málarann fæst þó best með því að bera saman þessa