Eimreiðin - 01.05.1901, Blaðsíða 21
IOI
Og ofmargan háðirðu áfellisdóm,
er elið af brám þínum hrundi;
en þeir voru bergmál frá brjóstsárri þrá,
er blíðuslit heitrofans mundi.
Með sáryrða-nepju um vegamóð vit
þú vékst þér á ganglúnum fótum,
með siggrunna lófa og sólbitna kinn
og sölnaðan haddinn frá rótum.
Hann sýndi þess vott, er á dagana dreif,
þau dægur, sem þú hafðir lifað,
þó atburður hver hefði á andlit þitt fátt
af æfisögn fjölbreyttri skrifað.
Og börnin þín reyndust sem blómgrösin veik,
er byljirnir haustlyndu hvína,
sem óðara visna og eru á burt
með ilminn og skrautliti sína.
Á kvöldstundu lífs þíns var kaldranalegt
um kofa þinn skjólveggja-snauðan,
því eitt fór í hernað með ágengri þjóð
en annað féll kvalið í dauðann.
í fátækt á hrakningi fékstu þinn vöxt,
en fjölhæfar gáfurnar vóru,
og menningarþrár, sem í brjósti þú barst,
á barnsaldri trúnað þér sóru.
Frá draumóra-hálendi röðull þinn reis,
sem rakleiðis suð’r og upp flýgur.
Að vonbrigða-hömrum á vegleysu strönd
þú veizt nú að kvöldsólin hnígur.
Giíbmundur Friðjónsson.