Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1982, Side 32
unnar löngum að „berja sléttur“. Það þótti hvorki létt verk né
eftirsótt, en aðferðin var sú að hafa í höndum trésleggju með
löngu skafti. Tæki þetta var nefndur „hnallur“. Hnallinum
var veifað tveim höndum og hann þurfti að reiða hátt og beita
afli þegar berja og jafna skyldi harða hnúska eða hnjóta svo að
jafnsléttir yrðu umhverfinu. Þannig var að verið um allar
sléttur frá fyrra ári, snemma vors á meðan enn var raki í rót,
en klaki helst horfinn eða því sem næst og endilega skyldi
„berja sléttur“ áður en gróður var kominn að ráði. Sterkir
menn og traustir voru helst til þessa starfs kjörnir því að þetta
var talið kraftaverk, þó ekki í þess orðs eiginlegu merkingu.
Sumir kölluðu verk þetta „að hnalla sléttur,“ eðlilegt heiti
samkvæmt notkun hnallsins. Að hnalla sléttur dag eftir dag
var enginn barnaleikur. Þar kom ég að er vinnumaður á
næsta bæ var að berja sléttur. Sá hét Halldór, vöðvamikill og
vel stinnur til átaka. Ég heilsaði og kvað hann mikilvirkan
með hnallinn svo ég teldi réttmætt að kalla hann Hnalldór.
,Já, þetta gengur — gengur bara vel hjá Hnalldóri, en
bráðum minnkar fartin, Hnalldór hættir og verður bara Dóri
þegar fjósverkin byrja.“ —„Það heyrist þegar Hnalldór lem-
ur, en Dóra störf önnur eru hljóðlátari“ bætir hann við.
Hvað sem afrekunum leið við svona atferli þótti þetta
sjálfsagður lokaáfangi við þúfnasléttun, því að svo best varð
rótin slétt undir ljá að þannig væri undirbúið, en hvorki var
verkið létt né löðurmannlegt. Að „berja sléttur“ var meðal
sjálfsögðustu verka á tímum þaksléttnanna. A okkar tímum
vinnur sláttuþyrlan það starf, sem Hnalldórir t>g Halldórir
fyrri tíma streittust við, sveittir og þreyttir að hverju dagsverki
loknu á vordögum, þegar bardaginn við þakslétturnar frá
fyrra ári stóð yfir sem síðasta athöfn, er skila skyldi hverri
fullgerðri sléttu sem túnauka eða bara sem landslagsbreyt-
ingu, til hagræðis fyrir komandi athafnir við fóðuröflun á búi
bóndans.
Þegar litið er til baka má með miklum rétti segja, að þak-
slétturaðferðin hafi átt uppruna sinn í kring um 1880 og að