Morgunblaðið - 08.12.2001, Page 12
Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra Íslands í Brussel, og Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra.
EVRÓPUSAMBANDSRÍKIN hafa
náð samstöðu um sameiginlega
skilgreiningu á hryðjuverkum og
samræmingu refsinga við þeim en
þetta er meðal þess sem finna má í
rammaákvörðun um baráttuna
gegn hryðjuverkum sem tekin var á
fundi ríkjanna í fyrradag. Þetta
kom fram á fundi dóms- og innan-
ríkisráðherra Evrópusambands-
ríkjanna 15 auk Íslands og Noregs
á vettvangi samsettu nefndarinnar
innan Schengen-samstarfsins, en
fundurinn var haldinn í gær og var
undir stjórn Sólveigar Pétursdóttur
dómsmálaráðherra.
Á fundi ráðherranna var meðal
annars rætt um baráttuna gegn
hryðjuverkum, stefnu Schengen-
ríkjanna í vegabréfsáritunarmálum
og nýjar leiðir til að beita end-
urbættu Schengen-tölvukerfi í bar-
áttunni gegn glæpum og hryðju-
verkum og gerði dómsmála-
ráðherra grein fyrir helstu
aðgerðum Íslands í baráttunni
gegn hryðjuverkum. Þar má nefna
fullgildingu sáttmála Sameinuðu
þjóðanna um baráttu gegn hryðju-
verkum, fyrirhugaðar nauðsyn-
legar lagabreytingar og aðgerðir
sem gripið hefur verið til á landa-
mærum og aðrar aðgerðir af hálfu
lögreglu, þar á meðal hvað varðar
notkun Schengen-upplýsingakerf-
isins.
Í fréttatilkynningu frá dóms-
málaráðuneytinum segir að á fund-
inum hafi verið samþykkt stefnu-
mótun sem felur í sér að stefnt er
að virkara eftirliti með hryðju-
verka- og afbrotastarfsemi innan
Evrópu með Schengen upplýs-
ingakerfinu, auknu samráði Evr-
ópuríkjanna við útgáfu vega-
bréfsáritana í einstökum ríkjum og
hertum öryggisreglum á því sviði.
Þá varð samkomulag um að aflétta
vegabréfsáritunarskyldu inn á
Schengen-svæðið fyrir rúmenska
borgara.
Dómsmálaráðherra stýrði fundi evrópskra ráðherra
Virkara eftirlit með
hryðjuverkastarfsemi
FRÉTTIR
12 LAUGARDAGUR 8. DESEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
MORGUNBLAÐINU hefur borist
eftirfarandi athugasemd frá Hjörleifi
Þórarinssyni, fyrir hönd lyfjahóps
SV-FÍS:
„Lyfjahópur Samtaka verslunar-
innar – FÍS harmar yfirlýsingar Ástu
Ragnheiðar Jóhannesdóttur, þing-
manns Samfylkingarinnar, í fjölmiðl-
um nýverið. Lyfjafyrirtæki gegna
þýðingarmiklu hlutverki innan heil-
brigðiskerfisins. Ábyrgð þingmanns-
ins er af þeim sökum stór, og með öllu
óviðunandi að hún kasti rýrð á fagleg
heilindi, ekki aðeins lyfjafyrirtækj-
anna, heldur einnig lækna og jafnvel
annarra heilbrigðisstétta. Í trausti
þess að þingmaðurinn hafi hug á mál-
efnalegri umræðu um stöðu lyfjafyr-
irtækja og fagleg samskipti þeirra og
lækna telur lyfjahópurinn sér skylt
að koma eftirfarandi upplýsingum á
framfæri:
1. Verja lyfjafyrirtæki meiri fjár-
munum til markaðsmála en rann-
sókna?
Lyfjafyrirtæki innan lyfjahóps
Samtaka verslunarinnar eru fjöl-
breytileg. Sum eru umboðsfyrirtæki
erlendra lyfjafyrirtækja, en alls eiga
liðlega 130 fyrirtæki skrásett lyf á Ís-
landi. Önnur eru hreinræktuð lyfja-
innflutnings- og dreifingarfyrirtæki
og svo eru fyrirtæki sem eru blanda
þessa. Íslensk dótturfyrirtæki er-
lendra lyfjafyrirtækja sem m.a. upp-
götva, þróa, framleiða og markaðs-
setja ný lyf eiga einnig beina aðild að
lyfjahópnum sem og innlendu lyfja-
framleiðslufyrirtækin Delta og
Omega Farma. Hversu miklum hluta
tekna þessara fyrirtækja er varið í
markaðsstarf er breytilegt en þau
eiga það þó sammerkt að verja því fé
til þessara hluta sem þau telja hag-
kvæmt fyrir eðlilegan vöxt og við-
gang starfsemi sinnar.
Samkvæmt upplýsingum opin-
berra aðila í Bandaríkjunum verja
lyfjafyrirtæki um 15–20% af veltu
sinni til rannsókna og þróunar. Þetta
hlutfall er með því hæsta sem gerist á
meðal fyrirtækja á rannsóknar- og
þróunarsviði. Ástæðan er sú að
lyfjaþróun er í heild sinni afar fjár-
frek. Eftir því sem lyfjarannsóknum
hefur fleygt fram hefur kostnaður
vegna hennar jafnframt vaxið, m.a.
vegna nýrra uppgötvana á sviði
erfða- og líftæknivísinda. Samkeppni
milli lyfjafyrirtækja tryggir sjálf-
krafa að þau verji eins miklum fjár-
munum og þeim er unnt í þróun nýrra
lyfja.
2. Er fjórfaldur munur á verði lyfja
eðlilegur?
Einkaleyfi nýrra lyfja rennur að
jafnaði út þegar þau hafa verið nokk-
ur ár á markaði. Það þýðir að keppi-
nautar geta hafið framleiðslu á ódýr-
um eftirlíkingum þeirra, eða á
svonefndum samheitalyfjum, sem er
afar jákvætt þegar um góð lyf er að
ræða. Í sumum tilvikum leysa ný lyf
hins vegar eldri og lakari lyf af hólmi,
hvað verkun eða aukaverkanir varð-
ar. Af þessum sökum er einfaldur
verðsamanburður villandi, þar sem
nýja (og dýrara) lyfið getur aukið lífs-
gæði sjúklinga og lengt lífslíkur
þeirra. Ný lyf geta jafnframt sparað
verulega fjármuni innan heilbrigðis-
kerfisins, með því að draga úr þörf-
inni á dýrum sjúkrahúsaðgerðum og
stytta legutíma sjúklinga á sjúkra-
húsum.
3. Veldur dýr markaðssetning
lyfjafyrirtækja of háu lyfjaverði hér á
landi?
Ekkert bendir til þess. Ástæðan er
helst sú að mikil og virk samkeppni er
á milli lyfjafyrirtækja hér á landi,
sem annars staðar. Við það bætist að
stjórnvöld hafa veruleg áhrif á verð-
lagningu lyfja.
Það má síðan ekki gleymast í þess-
ari umræðu að smæð íslenska mark-
aðarins er sá þáttur sem hvað mestu
ræður um verðmyndun lyfja, þar sem
m.a. eftirlits-, markaðs- og dreifing-
arkostnaður dreifist óhjákvæmilega á
færri en ella.
Á Vesturlöndum er starfsumhverfi
lyfjafyrirtækja óhemju flókið og
verðmyndun lyfja er af þeim sökum
margþætt. Ísland er þar engin und-
antekning. Lyfjafyrirtæki búa því við
annan starfsramma en fyrirtæki al-
mennt og er hver hreyfing þeirra á
markaði bundin laga- og reglugerð-
arákvæðum. Athuganir benda til að
reglur hér á landi séu með þeim ít-
arlegustu sem tíðkast. Spyrja má
hvort opinberar reglur og eftirlit hafi
jafnvel óþarflega íþyngjandi áhrif á
verðmyndun lyfja og er full ástæða til
þess að stjórnvöld láti kanna slíkt.
4. Leitast lyfjafyrirtæki við að
múta læknum?
Órökstuddar fullyrðingar af þess-
um toga eru ekki sæmandi og til þess
eins fallnar að skapa skaðlega tor-
tryggni meðal almennings gagnvart
læknum og lyfjafyrirtækjum.
Á það skal bent að lyfjahópur SV
og læknar undirrituðu á síðasta ári
siðareglur um samskipti þessara að-
ila. Þær undirstrika að ríkur vilji er
bæði hjá læknum og lyfjafyrirtækj-
um til að samskipti þeirra í milli séu
einungis á faglegum forsendum.
Nauðsynlegt er í þessu sambandi
að benda á að lyfjafyrirtækjum er
skylt að koma nýjum lyfjum á fram-
færi við lækna og aðrar heilbrigðis-
stéttir, ef svo ber undir. Í lögum er
m.a. gert ráð fyrir að lyfjafyrirtækin
hafi menntuðu starfsfólki á að skipa
til að sjá um slíkar kynningar.
5. Hvað vakir fyrir þingmanninum?
Yfirlýsingar Ástu Ragnheiðar Jó-
hannesdóttur vekja óhjákvæmilega
spurningar um hvað vaki fyrir þing-
manninum. Telji hún sig geta séð leið-
ir sem styrkt geta fagleg samskipti
lækna og lyfjafyrirtækja frekar skor-
ar lyfjahópur SV á Ástu Ragnheiði að
benda á þær á málefnalegum
grunni.“
Athugasemd frá lyfjahópi
Samtaka verslunarinnar – FÍS GUÐJÓN Hjörleifsson, bæjar-stjóri í Vestmannaeyjum, héltfund með starfsmönnum sínum
í gærmorgun og tilkynnti þeim
að hann ætlaði að hætta sem
bæjarstjóri í vor, en þá hyggst
hann taka við starfi útibús-
stjóra Sjóvár-Almennra trygg-
inga hf. í Vestmannaeyjum.
„Það er ágætt að breyta til
og gott að fá nýtt blóð í þetta,“
segir Guðjón Hjörleifsson við
Morgunblaðið, en hann hefur
verið bæjarstjóri í Vestmanna-
eyjum síðan í september 1990
og hefur því sinnt starfinu í
tæplega tólf ár þegar hann
hættir.
Aðspurður hvort hann hygg-
ist bjóða sig fram til Alþingis
segir Guðjón svo ekki vera. „Ég
hef alveg ýtt þeirri hugsun út af
borðinu,“ segir hann og bætir
við að hann sé búinn að ráða sig
í starf útibússtjóra hjá Sjóvá-
Almennum.
Guðjón Hjörleifsson segir að
bæjarstjóraárin hafi verið mjög
góð og hann kveðji starfið sátt-
ur. Hann hafi gengið í gegnum
súrt og sætt og framundan séu
mjög bjartir tímar. Mikil upp-
bygging hafi átt sér stað í at-
vinnulífinu í Vestmannaeyjum
eftir brunann í Ísfélaginu fyrir
um ári og tekjur bæjarsjóðs
hafi aukist þrátt fyrir áföll eins
og brunann og sjómannaverk-
föll. Mikil fjárfesting eigi sér
stað í bænum og hún eigi líka
eftir að skila sér.
Guðjón
Hjörleifsson
hættir sem
bæjarstjóri
Guðjón
Hjörleifsson
Skífan ósátt við 25 milljóna króna
sekt fyrir brot á samkeppnislögum
Mun áfrýja
niðurstöðu sam-
keppnisráðs
FORSVARSMENN Skífunnar hf.,
sem samkeppnsiráð sektaði um 25
milljónir króna fyrir brot á sam-
keppnislögum vegna samnings við
Aðföng í apríl síðastliðnum, eru
ákveðnir í að áfrýja niðurstöðunni til
áfrýjunarnefndar samkeppnismála.
Samningurinn, sem Samkeppnis-
ráð ógilti jafnframt, fól í sér að Að-
föng skyldu kaupa nær alla hljóm-
diska til endursölu í verslunum Baugs
hjá Skífunni og segir samkeppnisráð
að með því hafi Skífan misnotað
markaðsráðandi stöðu sína sem teljist
alvarlegt brot á samkeppnislögum.
„Við töldum okkur ekki vera að
gera neitt rangt með samningnum við
Aðföng, heldur að við værum að gera
samning sem endurspeglaði svokall-
aðan Topp 30 tónlista, sem gerður er
af PricewaterhouseCoopers og birtur
er reglulega. Við erum mjög ósáttir
við niðurstöðu Samkeppnisráðs og
munum því áfrýja henni,“ segir Ragn-
ar Birgisson framkvæmdastjóri Skíf-
unnar.
Annar tveggja samningsaðila í um-
ræddum samningi var sektaður eins
og fyrr gat, en hinn aðilinn, Aðföng,
dreifingarfyrirtæki Baugs, var hins
vegar ekki látinn sæta viðurlögum
vegna aðildar sinnar að samningnum.
Aðspurður um þetta, segir Guðmund-
ur Sigurðsson, forstöðumaður sam-
keppnissviðs Samkeppnisstofnunar,
að það fyrirtæki sem er markaðsráð-
andi, hafi verið látið sæta sektum.
„Sem heildsali og dreifandi hljóm-
diska er Skífan markaðsráðandi fyr-
irtæki. Baugur er ekki markaðsráð-
andi, hvorki sem kaupandi né seljandi
diska og ber þar af leiðandi ekki sömu
ábyrgð og Skífan gagnvart sam-
keppnislögum,“ segir Guðmundur.
STÖRF Alþingis ganga samkvæmt
áætlun að sögn Guðjóns Guðmunds-
sonar, annars varaforseta Alþingis,
en samkvæmt starfsáætlun þingsins
er miðað við að hlé verði gert á störf-
um þingsins næsta föstudag, 14. des-
ember.
Þriðja og síðasta umræða um
frumvarp til fjárlaga fór fram í gær
og er búist við að fjárlögin verði af-
greidd frá Alþingi í dag að lokinni at-
kvæðagreiðslu.
Ekkert bendir til annars en að hlé
verði gert á störfum þingsins næsta
föstudag, eins og fyrr segir, en miðað
er við að þing komi saman að nýju
eftir áramót hinn 22. janúar.
Störf þings-
ins á áætlun