Morgunblaðið - 04.02.2007, Page 30

Morgunblaðið - 04.02.2007, Page 30
söðlað um 30 SUNNUDAGUR 4. FEBRÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ H ann minnist upphafsins í Neskaupstað með hlýju: „Það var mjög gott að alast þar upp, mikið frjálsræði og tengsl við atvinnulífið. Við fylgdumst með skipunum koma og þegar aflan- um var landað. Ég bjó skammt frá netagerðinni og þar var hægt að stela blýi, svo bræddum við það og seldum aftur á netaverkstæðið!“ – Nálægðin við sjóinn hefur ekki gert úr þér sjómann? „Nei. Bæði var ég sjóveikur og svo heillaði sjórinn mig ekki. Ég fór aldr- ei á sjó. En ég vann í fiski; bæði í frystihúsinu og loðnubræðslunni. Svo kom einhver órói í mann og löngun til að líta borgarljósin.“ Í Reykjavík settist Tryggvi Þór í menntaskóla, en kláraði hann ekki, heldur hélt út á vinnumarkaðinn; starfaði fyrst við hljóðupptökur í Stúdíó Mjöt og síðan við klippingar á fréttum á Stöð 2. Þar vann hann fram á gamlársdag 1999. „Við hættum þar sama daginn; ég og Jón Óttar,“ segir hann og brosir við. Það er stutt í brosið hjá honum og gamansemin er aldrei langt undan. Eftir Stöð 2 settist Tryggvi Þór aftur á skólabekk; fór í Tækniskólann og nam iðnrekstrarfræði og í fram- haldinu í Háskóla Íslands, þar sem hann tók master í hagfræði. Doktor í hagfræði varð hann frá Háskólanum í Árósum 1998. – Hvernig kom hagfræðin yfir fréttaklipparann á Stöð 2? „Þegar ég var að klippa fréttirnar vaknaði áhugi minn á þjóðmálum og ég fór að velta fyrir mér þeim vanda- málum sem ég sá í fréttunum. Lausn- ina fann ég í hagfræði og vildi reynd- ar fara beint í hana, en þurfti meiri undirbúning, þar sem ég var ekki með stúdentspróf, þess vegna fór ég þessa krókaleið í gegnum Tækniskól- ann.“ – Má draga þá ályktun af blýbísn- issinum á Neskaupstað og hljóð- upptökuverinu í Reykjavík, að þú hafir viljað vera sjálfstæður? „Ég gekk nú reyndar inn í þetta hljóðver, þegar annar stofnandi þess hætti. En hitt er það, að ég hef alltaf átt frekar erfitt uppdráttar með aðra yfir mér, hef þurft að ráða mér svolít- ið mikið sjálfur. Það var eitt sem rak mig áfram til að læra; að verða sjálfs mín herra. Reyndar hef ég þurft að svara til stjórna í störfum mínum, en ég hef engu að síður ráðið mér nóg til að svala sjálfstæðisþörfinni.“ – Þú varst náttúrlega með puttann á púlsinum, þegar þú tókst upp Bubba Morthens, Skriðjöklana og Greifana svo dæmi séu nefnd. Fylgist þú enn með í tónlistinni? „Við Bubbi unnum mikið saman og ég fór með honum í einhverjar hljóm- leikaferðir. Svo tók ég upp margar af þeim hljómsveitum sem voru heitar á þessum tíma. Núna upplifi ég þetta meira í gegn- um krakkana, en fylgist ekki líkt því eins vel með og þegar ég var sjálfur á kafi í músíkbransanum. Ég er líka dellukarl, sem tekur einn hlut fyrir í einu, og nú er tónlistin ekki lengur mitt eina líf og yndi.“ Þægilegt að leggja hagfræð– inni fyrir utan hesthúsið – Hvaða dellu ertu með núna? „Ég er í hestum. Mínar tómstundir fara margar í helgarútreiðar og hestaferðir. Ég á hlut í hesthúsi í Víðidal með elzta bróður mínum og sá yngri býr á Gröf í Breiðuvík, þar sem við erum með 60, 70 hross.“ – Bara stóðbóndi! „Ég á nú minnst af því,“ segir hann hæverskur, en það er ljóst að hann er ánægður með sinn hlut. – Hvað sækir þú í hestamennsk- una? „Það er náttúrlega útiveran. Og svo fylgir því einhver sálarró að vera með dýri sem treystir manni. Góður hestur er hestur sem treystir knap- anum fullkomlega og það fylgir því viss fullnægja að ná slíku sambandi. Svo finnst mér afskaplega gaman að skoða landið af hestbaki. Og í hestamennskunni er mikill fé- lagsskapur.“ – Allt annar heimur en hagfræðin? „Já. Það er ákaflega þægilegt að leggja hagfræðinni fyrir utan hest- húsið! – Aftur í hljóð og mynd. Veltir þú fyrir þér upptöku eða klippingu og hugsar, að þetta hefðu menn getað gert betur eða öðru vísi? „Fyrstu árin á eftir var ég oft að pæla í þessu. En nú er hugurinn kom- inn svo langt frá, að ég er hættur að hugsa um þetta. Það er helzt að eitt- hvað óvænt í bíómynd eða nýtt í tón- list hristi upp í mér. En ég tek ekki eftir þessum hlutum dagsdaglega. Ég hef í mínu starfi átt mikil sam- skipti við fjölmiðlafólk og hitti þá stundum gamla vinnufélaga, sem mér finnst gaman að ræða þessa hluti við. Þeir geta svo sem kveikt í mér ennþá. En þeir halda ekki lengur fyr- ir mér vöku!“ – Fórstu á afmælistónleikana hans Bubba? „Nei, reyndar ekki. Ég átti ekki heimangengt. En ég fer stundum á tónleika með börnunum.“ – Hagfræðidoktor frá Árósum. Af hverju Danmörk? „Ástæðan er Torben Andersen, sem er einn helzti hagfræðingur Dana. Okkur varð vel til vina; hann hefur mikinn áhuga á Íslandi og er hestamaður. Eitt sinn vorum við að spjalla og þá sagði hann: Af hverju kemurðu ekki bara til mín og tekur doktorinn? Ég hafði verið að velta Bretlandi fyrir mér, en var kominn með stóra fjölskyldu og Danmörk hentaði okkur betur. Torben reyndist mér vel sem leið- beinandi og vináttan hefur haldizt; tvö síðustu árin höfum við farið sam- an í hestaferðir.“ Tryggvi Þór talar um fjölskylduna. Eiginkona hans er Sigurveig María Ingvadóttir og þau eiga fjögur börn á aldrinum 10–19 ára. Sigurveig María er frá Eskifirði; næsta bæ við Nes- kaupstað. Þau eru samt ekki æsku- ástir að austan. Hann segir að þau hafi vitað hvort af öðru sem ungling- ar, en ekki kynnzt fyrr en fullorðin og þá bæði með hjónaband að baki. Hagfræðin ekki fullkomin en hún veitir mörg svör Að loknu háskólanámi fékk Tryggvi Þór starf á Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, svo lektorsstöðu við skólann og varð loks forstöðumaður Hagfræðistofnunarinnar. Hann segir að dagarnir hafi oft verið langir, þeg- ar hann sinnti kennslu og hag- fræðistofnun hér heima og náminu í Árósum þess í milli. En sem betur fer hafi það aðeins verið tvö ár, sem voru mjög stíf. – Um hvað fjallaði doktors- ritgerðin? „Um hagvaxtarfræði; hinar ýmsu hliðar hagvaxtar; hvaða áhrif hlutir eins og menntun, verðbólga, auð- lindastjórnun og ríkisafskipti geta haft á hagvöxtinn.“ – Niðurstöður í stuttu máli! „Stutt svar hvað varðar verðbólg- una; mikil verðbólga til langs tíma er slæm fyrir hagvöxtinn. Þess vegna hafa þjóðir reynt að setja verðbólgu- markmið til að halda henni í skefjum og forðast sveiflur. Um afskipti hins opinbera er það að segja, að því meira frelsi í efna- hagsmálum, að einstaklingarnir sjái um framleiðsluna, þeim mun meiri hagvöxtur næst fram. Betri menntun felur í sér meiri hagvaxtarmöguleika og því betri stjórn sem menn hafa á nátt- úruauðlindunum, þeim mun meiri ár- angri ná þeir gegn almenningsvand- anum.“ – Hvaða vandi er það? „Vandi almenninganna felst í því að ef eignarréttur er ekki skil- greindur og allir geta sótt í sömu auð- lindina án takmarkana mun sú auð- lind að lokum verða ofnýtt og engum til gagns. Með skynsamlegri stjórnun má ná fram svokallaðri auðlinda- rentu, en hún endurspeglast til dæm- is í þeirri góðu afkomu, sem hefur verið í sjávarútvegi síðan kvótakerf- inu var komið á.“ – Hvað varstu að fást við hjá Hag- fræðistofnun Háskóla Íslands? „Þar vinna menn fyrst og fremst að rannsóknum á íslenzku efnahagslífi og svo grunnrannsóknum.“ – Er hagfræðin alltaf söm við sig? „Hún er ekki óumbreytanleg, ef þú átt við það. Í henni eru vissir straum- ar. Það er alltaf að bætast við þekk- inguna og vandamálin eru á sífelldri hreyfingu. Þegar ég byrjaði fyrir 10 árum var lausn verðbólguvandans númer eitt, tvö og þrjú. Nú setja margir spurn- ingarmerki við verðbólgumarkmiðin og efast jafnvel um að þau dugi sem hagstjórnaraðferð. Í fjölbreyttum og færanlegum heimi dugi ekki lengur þau ráð, sem dugðu fyrir 15 árum. En hvaða ráð duga gegn verðbólgunni er ekki augljóst og að mínu mati brýnt úrlausnarefni. Þetta er nefnilega ekki eins og að byggja brú, þar sem burðarþols- reikningarnir standa óhaggaðir í 200 ár. Hagstjórnin tekur sífelldum breytingum og menn verða stöðugt að læra og finna nýjar aðferðir til þess að glíma við vandann.“ Praktíserar nú það sem hann predikaði Morgunblaðið/ÞÖK Þjóðmálin Tryggvi Þór Herbertsson fékk áhuga á þjóðmálum þegar hann var að klippa fréttir hjá Stöð 2. Þegar hljóð og mynd höfðu verið hans vett- vangur um árabil söðlaði hann um og gekk hag- fræðinni og háskólalífinu á hönd. Og enn skiptir Tryggvi Þór Herbertsson um vettvang, fer frá Há- skóla Íslands á krossgöt- um og sezt í forstjórastól nýs fjárfestingabanka með starfsvettvang um veröld víða. Freysteinn Jóhanns- son talaði við Tryggva Þór á þessum tímamótum.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.