Andvari - 01.01.1986, Page 39
ANDVARI
GUNNAR THORODDSEN
37
liðs við tengdaföður sinn Ásgeir Ásgeirsson í forsetakosningunum
sem fram fóru sextán árum áður, 1952. í þeim hópi var þó ekki for-
maður flokksins, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, sem lýsti
yfir fullum stuðningi við Gunnar, auk margra annarra forystu-
manna flokksins. í áróðrinum var því einnig haldið á lofti að óhæft
væri að forsetaembættið á íslandi „gengi að erfðum“, kæmi í hlut
tengdasonar fráfarandi forseta.
Allt hafði þetta sín áhrif. En ekki síst reyndist það hér þungt á
metaskálunum að mótframbjóðandi Gunnars var virtur maður og
vinsæll sem fjöldi kjósenda treysti til að rækja embætti forseta ís-
lands með fullum sóma, sem og varð raunin á. Víkur Gunnar í
endurminningum sínum sérstaklega að því atriði.
Meðan á kosningabaráttunni stóð hittust þeir Gunnar og Kristján
nokkrum sinnum og létu hvorki hana né úrslitin hafa áhrif á per-
sónulegt samband sitt. Síðar átti Gunnar margvísleg og góð sam-
skipti við Kristján Eldjárn, ekki síst þegar kom að lausn stjórnar-
kreppunnar í upphafi árs 1980 og við myndun þeirrar ríkisstjórnar
sem þá tók við undir forsæti Gunnars Thoroddsen. Var það síðasta
stjórnarmyndun í forsetatíð Kristjáns Eldjárns.
12
Að forsetakosningunum loknum hurfu þau Gunnar og Vala aftur
til Kaupmannahafnar þar sem Gunnar gegndi sendiherraembætti til
ársloka 1969. Þá um haustið hafði hann verið skipaður dómari í
Hæstarétti og við því starfi tók hann 1. janúar 1970. Síðla árs 1970
var ákveðið að efna til prófkjörs sjálfstæðismanna í Reykjavík vegna
þingkosninganna sem áttu að fara fram vorið 1971. Ýmsir vinir,
stuðningsmenn og samherjar Gunnars frá fyrri tíð skoruðu á hann
að hefja aftur þátttöku í stjórnmálum. Of snemmt væri fyrir hann að
hverfa úr baráttunni og þar væri enn mörg þörf verk að vinna sem
eftir ætti að koma í höfn. Varð það úr að Gunnar sagði lausu starfi
hæstaréttardómara í september um haustið nokkru áður en próf-
kjörið átti að fara fram, þar sem hann taldi ekki koma til greina að
taka þátt í undirbúningi stjórnmálastarfs meðan hann væri enn
hæstaréttardómari.