Andvari - 01.01.1986, Page 46
44
GUNNAR G. SCHRAM
ANDVARI
mynda ríkisstjórn í trássi við meirihluta þingflokks og miðstjórnar
svaraði Gunnar bæði á landsfundi 1981, á þingi og við mörg önnur
tækifæri.
í huga hans var hér um að ræða þá grundvallarspurningu hvort
menn telja sér skylt að lúta flokksaga í einu og öllu eða lúta eigin
sannfæringu með frelsið að leiðarljósi. Þessi sjónarmið sín skýrir
hann í endurminningum sínum með þessum orðum:
„Sumir gallharðir flokksmenn líta svo á, að meirihlutaákvarðanir
hjá valdastofnunum flokksins séu alltaf öllum fyrir bestu. Þeir nota
þetta vígorð sem löngum hefur reynst beitt og áhrifaríkt: „Það sem
er best fyrir flokkinn, er best fyrir þjóðina.“ í öllum flokkum eru til
menn, sem hugsa á þessa leið: „Flokkurinn fyrst, — síðan þjóðin.“
Oft reynir hér á alþingismenn. í stjórnarskránni er ákveðið, að al-
þingismaður sé eingöngu bundinn við sannfæringu sína. Ef meiri-
hluti þingflokks ákveður eitthvað sem þingmanni finnst ganga þvert
gegn skoðun hans og samvisku, hvað á hann þá að gera? Á flokks-
hlýðnin að ná svo langt, að sannfæring og stjórnarskrá verði að
víkja?
Ég segi hiklaust nei.“
15
Ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen sat að völdum þar til í maímán-
uði eftir kosningarnar 1983. Um hana má segja líkt og aðrar ríkis-
stjórnir að sumum stefnumálum sínum kom hún í framkvæmd en
öðrum ekki. í þau rúmu þrjú ár sem hún sat að völdum hélst góður
friður á vinnumarkaðnum og full atvinna var í landinu. Ríkissjóður
var rekinn með tekjuafgangi 1980, 1981 og 1982. Sparnaður jókst
verulega í kjölfar þess nýmælis að mönnum var heimilað að stofna
verðtryggða sparireikninga í bönkum, en um það hafði Gunnar
forgöngu í upphafi stjórnartímans. Hlaut sú ráðstöfun strax góðar
undirtektir almennings og hefur síðan haft víðtæk og hagstæð áhrif
í fjármálalífi þjóðarinnar.
Af öðrum atriðum sem ríkisstjórnin fékk framgengt var jöfnun á
starfsskilyrðum atvinnuveganna sem lengi hafði verið rætt um. Voru
skattar á atvinnuvegina við það samræmdir og lækkaðir.