Andvari - 01.01.1986, Síða 66
64
HJÁLMAR SVEINSSON
ANDVARI
I
Siðmenningin (cicilisation, dregið af latneska orðinu civilis sem þýðir
„borgaralegur" eða „borgararéttindi") var í augum rómantíkeranna
kreddufesta borgaralegs samfélags, kolsvartar borgir iðnbyltingarinnar og
sú skoðun að maður og náttúra lytu vélrænum lögmálum. Sönn menning
(kultur, dregið af latneska orðinu colere sem þýðir „að rækta“) var að þeirra
hyggju það eitt að einstaklingurinn kæmist til æ meiri þroska og að þjóðin
fengi ræktað arfleifð sína.
Samkvæmt hugmyndum Sigurðar Nordals í Lífi og dauða er siðmenning-
in að vísu annar meginþátturinn sem skilur mann frá dýri. Engu að síður
er í henni fólgin sú hætta að hún: „ . . . gleypi manninn með húð og hári,
raski mati hans á öðrum verðmætum, sem eru ekki af hennar heimi, en ein-
staklingnum jafn nauðsynleg eða nauðsynlegri . . .“.2) „Menningin, kultur“
segir hann „ . . . í æðsta og strangasta skilningi þess orðs, er andlegur og
siðferðilegur einstaklingsþroski, sem er ekki miðaður við gagn né laun.“3)
Sé siðmenningin eins konar forstig þess sem gerir manninn að rnanni, þá er
menningin: „ . . . það eitt að neyta þess, sem siðmenningin býður, án þess
að selja því sál sína.“4)
Nordal segir á einum stað um þekkinguna að hún sé ýmist venjugild,
notagild eða sjálfgild.5) Pessa flokkun mætti einnig nota til að glöggva sig á
af hverju hann aðgreinir menningu (í merkingunni „einstaklingsþroski")
og siðmenningu. Siðmenningin er hvort tveggja notagild og venjugild.
Notagild vegna þess hún getur til að mynda aukið lífslíkur fólks en venju-
gild vegna þess hún er það kerfí af reglum og venjum sem einstaklingar
hvers þjóðfélags verða að lúta. Gildi siðmenningar er því ætíð skilorðs-
bundið. Menningin (einstaklingsþroskinn) ber aftur á móti „ . . . ávöxt af
sjálfu sér eins og gott tré.“6)
Siðmenningin getur verið hættuleg af því hún setur skylduna að hlýða
ofar skyldunni að hugsa. Hún heimtar af okkur þekkingu en gerir sér enga
rellu þó aðeins sé um „dauða heilafylli“ að ræða.7) Hún krefst fylgispektar
einstaklinganna en lætur sér í léttu rúmi liggja hvort þeir séu sjálfum sér
heilir.
Ef við ætlum að njóta þeirra efnislegu gæða sem siðmenningin býður, án
þess að ganga þessu hugsunar- og samviskuleysi hennar á vald, þa er yfir-
vegunin eina bjargráðið.
Yfirvegunarspeki Nordals kemur vel fram í þessum orðum í Lífi og
dauða: „Enginn kemst hjá því, í þessu áhættusama og flókna mannlífi, að
fara eftir einhverri lífsskoðun, einhverri trú, í hegðun sinni og líferni.“8)
Sérhver athöfn okkar er hlaðin dómum um tilveruna og heiminn. Við
erum alltaf að velja og hafna. Spurningin er aðeins sú hvort það er okkur