Andvari - 01.01.1986, Síða 87
ÁRNI SIGURJÓNSSON:
Bjartur og sveitasælan
Afstaðan til þéttbýlismyndunar og nútímamenningar var eitt helsta bit-
beinið í hugmyndabaráttu hérlendis á árunum milli stríða. Þar tókust á
íhald og framsókn, annars vegar þeir sem litu til gamla tímans með eftirsjá
og hins vegar þeir sem fögnuðu hinum nýju lífsháttum. Þessum tveim
stefnum var svo tengd afstaðan til erlendra menningaráhrifa, þar sem
menn skiptust í tvo flokka, opingáttarmenn og innilokunarmenn sem Sig-
urður Nordal nefndi svo (Vaka 1928, 89).
Ef rissa á upp meginlínur í sagnagerð áranna milli stríða má í fyrsta lagi
vekja athygli á að sögusviðið var oftast sveit eða sjávarpláss, og sveitin var
algengasta sögusviðið. Þetta kannast menn við ef hugsað er til verka Jóns
Trausta, Gunnars Gunnarssonar, Guðmundar G. Hagalíns, Kristínar Sig-
fúsdóttur og Halldórs Laxness. Sögur sem gerast í kauptúni (oftast sjávar-
plássi) komu einnig alloft fyrir, en sögur sem gerðust eingöngu eða svo til
eingöngu í Reykjavík voru fjarska fáar á þessu tímabili. Sveitasögurnar
voru flestar skrifaðar í þéttbýli, og má í því sambandi rifja upp þau orð
Halldórs Laxness að hinn ómengaði sveitamaður sé ágætt yrkisefni en aumt
skáld (Alþýðubókin 1929, 95).
í öðru Iagi skal nefnt að sögulegur skáldskapur var stundaður af nokkru
kappi og þá einna mest af höfundum sem leituðu fyrir sér á erlendri
grund, t. d. þeim Friðriki Á. Brekkan, Guðmundi Kamban og Gunnari
Gunnarssyni. í sögulegum skáldskap var sögusviðið jafnan dreifbýli.
í þriðja lagi skal þess getið að skáldskap áranna milli stríða má kalla í
meginatriðum raunsæislegan og hefðbundinn í formi. Frá þessari reglu
voru aðeins fáar undantekningar og eftir því frægar, t. d. „Hel“ eftir
Nordal, Flugur Jóns Thoroddsens yngra, Bréf til Láru og Vefarinn mikli frá
Kasmír.
í fjórða lagi má nefna að þeim sögum sem hafa sveit að höfuðvettvangi
má skipta í flokka eftir afstöðu þeirra til þéttbýlismyndunarinnar. Ýmsir
höfundar sem höfðu alist upp í sveit voru fullir eftirsjár; sumir þeirra
höfðu sterka tilhneigingu til að kalla Reykjavík „hina miklu Babýlon" eins
og Kristrún í Hamravík í sögu Guðmundar Hagalíns.
Sögur þar sem sjávarpláss eru aðalsögusvið eru hins vegar oft jákvæðari