Andvari - 01.01.1986, Síða 136
134
AÐALGEIR KRISTJÁNSSON
ANDVARI
ekki í bréfunum. Hitt er ljósara en áður að birting kvæðanna í Fjölni og
Norðurfara hefir að öllum líkindum þjónað tvennum tilgangi ef marka má
orð séra Sigfúsar.
í bréfí sem séra Sigfús skrifaði Gísla 30. janúar 1850 sést að hann hefír
fengið síðara árgang Norðurfara í hendur: „því auk bréfsins var mér besta
skemmtun að lesa Norðurfara þinn“. Síðar segir Sigfús: „Fögur þyki mér
frelsisbarátta Ungverja og bjóst eg alltaf við, meðan eg var að lesa að hið
góða málefnið, sem svo var drengilega fyrir barist, fengi góðan enda og
bæri sigurinn úr býtum; en vesælings Kossuth! sárt er þegar slíkir menn sjá
allt hið mikla og fagra erfíði sitt algjörlega ónýtt af illum frelsiskúgurum!
Kúgararnir hafa líklega ekki enn fyllt mælir synda sinna; en stundin kemur
þó seinna verði.
Góður þyki mér þáttur þinn „um alþingi að sumri“ og er það nú það sem
líklega fær hverjum manni mest umhugsunarefni, nema þeim sem ekkert
hugsa, og eru þeir helst of margir“. Séra Sigfús lýkur bréfínu á þessa leið:
„Að lokunum verð eg að láta þér í ljósi, hvað mér þótti vænt um að heyra
hvað þú eiginlega leggur fyrir þig, eg hefí alltaf ímyndað mér tóma lögvísi
heldur þurra og ekki lagaða til að fullnægja þínum anda, en eg trúi því vel
að þetta sé skemmtilegt stúdíum, og sér á parti sé eg, að þú með því undir-
býrð þig til að taka á sínum tíma þátt í stjórn íslands og máske gjörast
hérna jarl eða landstjóri! eða þá triumvir reipublicæ restituendæ!"37
Séra Páll Jónsson á Miklabæ var samtímis Gísla í skóla. Hann annaðist
sölu Norðurfara í Skagafírði. Séra Páll skrifaði Gísla 16. febrúar 1849 og
þakkaði fyrir bréf og Norðurfara og lýsti því yfír að honum líkaði dável við
hann — „og það vildi eg, að þig gætuð haldið riti þessu fram í frjálslegum og
fögrum anda.“ í öðru bréfí frá Páli 9. febrúar 1850 ber Norðurfara aftur
á góma, enda hafði séra Páll þá fengið síðari árganginn í hendur og þakkar
Gísla fyrir bréf frá liðnu sumri, „mér hefði þótt vænt um það, þó það hefði
verið ritað á roð. — En vænst þyki mér þó um Norðurfara; því var íjandans
ver, að hann gat ei komist til Norðurlandsins í haust, . . . Blessaður! láttu
ekki Norðurfara deyja strax aftur, . . . íslandi ríður nú svo mikið á að hafa
sem best og flest tímarit á lofti, er glæði þjóðlíf vort og frelsisást, og til þess
finnst mér Norðurfari dável lagaður; hann segir að vísu nokkuð beiskan
sannleikann stundum, en það gildir líka einu, þess þarf með núna á þessari
baráttu- og byltingaöld. — Eitt þyki mér þó að Norðurfara, og vil eg ei dylja
ykkur þess útgefendur hans: Mér þykir ekki nógu vel gengið frá honum að
því leyti, sem málið snertir, . . . Ágætur er þátturinn „um alþing að sumri“,
eg er þar að öllu leyti á ykkar máli, hugmyndir mínar og vilji um sambandið
milli íslands og Danmerkur og stjórnarskipun vora eru þær sömu og þar
koma fram hjá ykkur; eg ætla því ekki að fara fleirum orðum um það.“