Andvari - 01.01.1986, Page 168
166
GILS GUÐMUNDSSON
ANDVARI
vægastir eru við innheimtuna. Dróst hjá mér úr hömlu að greiða Vilmundi
síðasta hluta ritlaunanna, enda hafði ekki verið eftir því gengið. Var komið
fram á útmánuði 1971, þegar ég ákvað að bregða mér heim til hans, greiða
skuldina og láta afsökunarbeiðni fylgja. Vilmundur var þá orðinn 82 ára
gamall, heilsan tekin að bila og líkamskraftar að þverra.
Vilmundur tók mér vel að vanda. Um leið og ég fékk honum ávísunina
með afsökunarorðum sagði hann:
„Peningarnir koma nógu snemma. Sú var tíðin, að mér fannst mig skorta
fátt — nema peninga. Nú er svo komið, að mig skortir flest — nema pen-
inga.“
Tæpu ári síðar var hann allur.
5
Þegar ég lít yfir efni þessa tveggja binda ritsafns Vilmundar Jónssonar
á ég ekki auðvelt með að gera upp á milli þeirra átta efnisflokka sem þar
eru. í öllum er að fínna margvíslegt góðgæti. Vafalítið eru þó bestu minn-
ingaþættirnir líklegastir til langlífis. Maður verður að játa að stjórnmála-
greinarnar sumar, svo snjallar sem þær eru, hafa dofnað nokkuð eftir að
flest atvik eru gleymd. Óborganleg fyndnin og napurt háðið í greinum í
blaðinu Skutli frá ísafjarðarárunum nýtur sín vart til fulls nema í röðum
gamalla Vestfirðinga sem þekktu atburði og persónur. Þó hef ég leyft mér
að lesa á samkomum, þar sem pólitík og skemmtun skyldi fara saman,
greinina frábæru í formi bréfs til frú Theodóru Thoroddsen, um gamla og
nýja íhaldið á ísafirði. Hefur þeim lestri verið einkar vel fagnað, enda mun
snjallari pólitísk blaðagrein vandfundin. Það væri þá helst önnur grein Vil-
mundar úr Skutli frá ísafjarðarárunum, „Með kossi“.
í flokki ritgerða um heilbrigðismál verða nokkrar bráðsnjallar deilu-
greinar hvað eftirminnilegastar. Nefni ég þar sérstaklega greinina „Trúin
á lygina — Svar til prófessors Guðmundar Hannessonar“. Hrein snilld er og
ritgerðin „Logið í stállunga - Ritað gegn auglýsingaskrumi lækna".
Þá eru ritgerðirnar um íslenskt mál hver annarri betri, og halda flestar
fullu gildi sínu enn í dag. Ein þeirra heitir „Vörn fyrir veiru“. Get ég ekki
stillt mig um að birta úr henni nokkra kafla, því auk þess sem hún er bæði
skemmtileg og fróðleg, er hún gott dæmi um vopnfimi Vilmundar:
'filefni þessarar greinar eru ummæli góðkunningja míns, dr. Sigurðar Péturs-
sonar gerlafræðings, í lokahefti síðasta árgangs Náttúrufræðingsins í grein hans,
Vírusarnir og frumgróður jarðarinnar, er hann fordæmir þá uppástungu, að
vírus skuli heita á íslenzku veira, en mér er málið skylt, því að ég er uppástungu-
maðurinn.