Menntamál - 01.12.1955, Page 7
MENNTAMÁL
189
hefur varðveitzt með eiginhendi Jónasar Hallgrímssonar
og hefur verið ljósprentað ásamt fleiri kvæðum í Kaup-
mannahöfn 1938. Þar sést m. a. lagfæring skáldsins á einu
orði, sem hann hefur tvívegis breytt, þar til honum finnst
það algerlega viðunandi. 1 fyrstu hefur hann ritað:
Söngvarinn ljúfi, fuglinn trúr, sem fer
með fjaðrabliki háa vegarleysu
í grænan dal að kveða kvæðin þín.
En Jónas er óánægður. Hann skrifar fyrir ofan í
lágan dal, og loks lagfærir hann enn og segir í sumardal,
og verður þá ekki betur gert. Einnig getur það orðið nem-
endum holl hugvekja að sjá í sömu ljósprentuðu útgáfunni
hinar mörgu breytingar, sem Bjarni Thorarensen hefur
gert á Sigrúnarljóðum, frægasta ástarkvæði á íslenzka
tungu, og um leið skyggnast þeir inn í skáldasmiðjuna,
þar sem málmurinn er í deiglunni.
Ein af aðferðunum til að vekja áhuga nemenda á stíl-
fræði er að bera saman tvo bókmenntakafla um sama efni.
Samanburður á tveimur ritverkum skírskotar til mál-
tilfinningar þeirra og leiðir oft í ljós ýmislegt, sem þeim
var áður hulið. Mætti t. d. taka samanburð á frásögninni
um Ólaf helga og bræður hans í Helgisögunni og sama
kafla í Heimskringlu. Fer þá ekki hjá því, að nemendur
finni muninn á tilþrifalítilli, hversdagslegri frásögn og
hinum þóttmikla og áhrifaríka stíl Snorra. Með þeim
samanburði finna þeir, hversu stuttar, laggóðar aðalsetn-
ingar mega sín meira en aukasetningar, sem oft teygja frá-
sögnina á langinn og „ræna“, ef svo mætti að orði komast,
áhrifum aðalsetninganna. Með þeim samanburði finna þau
einnig muninn á beinni ræðu og óbeinni og gildi þrenn-
ingarinnar, þar sem bræðurnir eru aðeins tveir, Hálfdan
og Haraldur í Helgisögunni, en þrír, Guttormur, Hálfdan
og Haraldur, í frásögn Snorra, en við það skapast stígandi
í frásögninni og um leið eftirvænting lesandans.