Menntamál - 01.12.1955, Blaðsíða 60
242
MENNTAMÁL
þeirra kostar mikinn tíma og erfiði hæfustu manna, og
sennilega samvinnu þeirra margra í ýmsum greinum. Og
öll verður útgáfan dýr. Þó er ég þess fullviss, að engu fé
væri betur varið, ef samningin tækist vel. Og betra er
okkur kennurum að bíða lengi eftir góðri bók en að hreppa
illa án biðar.
Þá má og, — þrátt fyrir allar veilur í menntun og hæfni
starfandi kennara, deyfð almennings og skort bóka og
kennslutækja, — bæta starfshætti margra skóla, líklega
flestra, með góðri námsskrá og skynsamlegum prófum.
Raunar hafa íslenzkir barnaskólar lengstum búið við skyn-
samlegar námsskrár, en þær hafa ekki verið í höndum
hvers kennara, hvað þá í höndum alls almennings. Hins
vegar hafa allir kynnzt prófunum, og þau hafa unnið
mörgum skóla mikið mein, enda jafnan, seinustu þrjátíu
árin, margbrotið ákvæði námsskránna.
Barnaskólarnir starfa í þágu alls almennings, enda
vilja margir segja þeim fyrir verkum. Kröfurnar klingja
úr öllum áttum, og allt skal barnaskólinn kenna, það sem
ekki verður flokkað með „æðri vísindum." Hann skal
kenna marga þá hluti, sem hverju foreldri er skylt að
kenna barni sínu innan þriggja ára aldurs, hann skal
kenna hvers konar vinnubrögð, jafnvel helzt þau fátíðustu,
og hann skal kenna fjölda fræðamola, þarfra og fánýtra,
raunhæfra og kerlingabóka. Verði þá einhver tími af-
gangs, má kenna lestur og skrift og jafnvel dálítið í reikn-
ingi.
Forráðamenn alþýðufræðslunnar hafa enn ekki látið
þessar raddir miklu ráða. Þeir hafa sett námsskrár í
samræmi við það, sem þekktir kennarar vildu — af eigin
hvötum og gömlum venjum — kenna í skólum sínum.
Betri aðferð við setningu námsskrár verður varla íundin,
og þó hefur hún sína galla.