Iðunn : nýr flokkur - 01.04.1929, Blaðsíða 45
ÍDUNN
Jarðabætur.
139
og þorir; hann getur reynt það! Við látum okkur ekki
hérna megin árinnar. Fari það í sjóðandi —«
»Gættu að guði almáttugum og talaðu ekki svona,
Björn«, sagði Ragnhildur. Hún hafði gripið um handlegg
bónda síns og leitaðist við að sefa hann. »011 verðum
við að láta okkur, þegar dauðinn kallar«, bætti hún við.
»Ekki um sláttinn, engar tafir um hábjargræðistímann,
meðan ég ræð einhverju. — Eða — ja, dauðinn, segirðu.
— Jú, það mun vera svo, vænti ég, þegar — þegar
hann — þegar dauðinn kallar«. —
Svo var sem Björn hefði nú rutt úr sér mestu ósköp-
unum. Honum varð litið til fólksins, sem stóð þarna
kring um hann í töðuflekknum og glápti á hann felmti
slegið, þögult og forviða. Þá var eins og hann tæki að
ranka ögn við sér. Hann hljóðnaði nú mjög og fölva
sló á andlit hans. Senn greip hann kollhettu einnar dótt-
ur sinnar og þerraði með henni svitastraumana af enni
sér, vöngum og hálsi og af brjóstinu, svo langt sem til
varð náð. Hann mælti ekki einu orði fleira, og fram af
þessu rólaði hann heim að bæ með þeim Ragnhildi og
gestinum. Og ekki sást hann utan dyra, það sem eftir
var dagsins. — — —
Tíðin hafði liðið óðfluga og kapphlaupinu var lokið.
Þeir voru ekki ýkjamargir, sem þektu til þessarar móð-
ugu og tiltölulega hljóðu viðureignar, eins og hún hafði
verið í insta eðli sínu, en öllum þeim, er næst voru
komnir vitnum um hana, varð hún lengi minnisstæð.
Verkin sýndu líka merkin: Jörðunum hafði verið tekið
eftirminnilegt tak, svo að með fádæmum mátti virðast,
hverju mannshöndin fékk áorkað, þegar viljinn var með
og önnur skilyrði anda og efnis fyrir höndum. En þeir,
sem staðið höfðu í eldinum, óskuðu þó ekki eftir að
endurlifa suma liðna daga.