Prestafélagsritið - 01.01.1923, Blaðsíða 45
40
Magnús Helgason:
Prestafélagsritið.
fest og heitstrengingar. Fjöldi annara eldri mentamanna tóku
í sama strenginn, skáldin ortu og ritstjórar rituðu hver öðrum
snjallari kvæði og greinar; jafnvel sjálfum stjórnendum land-
anna, gömlum, kaldrifjuðum stjórnmálagaurum, virtist hitna um
hjartarætur af bróðurkærleika. Það var ekki tilætlunin, að gera
samsteypuríki úr þjóðtmum öllum, eins og með Kalmarsam-
bandinu á árunum. Ríkin skyldu vera þrjú eftir sem áður, en
standa saman eins og einn maður gegn árásum annara ríkja.
Rússneski ræninginn hafði tekið Finnland af Svíum ekki alls
fyrir löngu, og þar þótti jafnan af illum ills von sem hann
var. Og þýzki örninn var farinn að skaka vængina og bjóst
að fljúga til bráða norður á bóginn og slíta hertogadæmin
frá Danaveldi. Astæðan var því nóg fyrir norrænu bræðurna
til að gleyma fornum fjandskap og horfast að bökum til varnar.
Það má nærri geta, að annar eins hugsjónamaður og
Kristófer var skipaði sér fús undir þetta merki. Þessi hugsjón
kældi ekki að neinu ættjarðarást hans, þvert á móti, lyfti henni
hærra og færði henni nýjan hita. Hann Ias guðfræði við há-
skólann í 6 ár, en sá lestur, sem haft hefir einna mest áhrif
á trúarlíf hans og hugsunarhátt á þeim árum, voru rit eftir
danskan mann, Sören Kirkegaard, einhvern hinn mesta speking,
er Danir hafa átt. Með eldheitum, sárbeittum ádeiluritum, flettir
sá maður ofan af allri hálfvelgjunni og hræsninni í kirkjunni
og sýnir, hversu mikið af þessum vana-kristindómi æðri manná
og lægri er ekkert annað en lygafroða, sem hjaðnar undir
eins, ef eitthvað reynir á, ef til þess kemur að þurfa að láta
móti sér eða leggja eitthvað í sölurnar. Aldrei hefir nokkur
maður eins úthúðað hálfleikanum og óeinlægninni, sem rennur
og svíkst undan merkjum þegar er á reynir. Á þessum árum
er lífsskoðun og lund Kristófers að festast og þroskast. Eg
held, að segja mætti um hann líkt og Matthías kvað um
Jón Sigurðsson:
Þá sór hann aö hræðast ei hatur og völd
né heilaga köllun að svíkja,
en ritaði djúpt á sinn riddaraskjöld
sitt rausnarorð: Aldrei að víkja.