Hugur - 01.01.1996, Side 50
48
Vilhjálmur Ámason
sig, safnast saman og ræða mál, og gefur þeim merkingu.32 Þessi
réttindi fá áhrifamátt sinn í krafti þess að við höfum aðgang að
opinberum vettvangi33 þar sem upplýst og gagnrýnin skoðanamynd-
un á sér stað. Leitinni að þeirri stofnanaskipan sem auðveldar mótun
þessa almannavilja lýkur aldrei og ef til vill er hún brýnasta verkefni
siðmenningarinnar ef við ætlum að efla sjálf okkur sem frjálsar
verur.34 f öllu falli þýðir þetta að gera verður lýðræðiskröfunni
a.m.k. jafnhátt undir höfði og kröfunum um efnahagslegan jöfnuð og
einstaklingsfrelsi. Frelsið sem birtist í lýðræðislegri rökræðu um
mótun sameiginlegra lífsskilyrða er þáttur sem vantað hefur inn í
hefðbundnu orðræðu um frelsið. Þess vegna hafa bæði frjálshyggjan
og jafnaðarstefnan gefið skakka mynd af meginverkefni félagslegra
umbóta.
Ég sagði hér að ofan að þessu verkefni félagslegs frelsis er aldrei
lokið og eflaust má færa mörg rök fyrir því að lýðræðishugsjónin sé
óraunsæ. Ein mikilvæg rök eru þau að í neysluþjóðfélagi nútímans
virðist fólk vera fyllilega sátt við tilveruna og sækist fremur eftir
öryggi en ábyrgð. Sú staðreynd breytist hins vegar ekki að þetta
þjóðfélag veitir okkur ekki frelsi nema í mjög takmörkuðum
skilningi. En hitt er lflca staðreynd, eins og Aristóteles benti á, að við
erum verur sem færar eru um að ræða málin á skynsamlegan hátt og
að við komum alltaf til með að þurfa að leysa vandamál okkar í
samræðum. Mikilvægasta spurningin er því sú, hvernig við tölum
saman. Er öllum leyft að taka þátt í samræðunum? Hlustum við á
rök? Höfum við áhuga á að komast að skynsamlegu samkomulagi?
Frá þessu sjónarhorni séð, felur hugmyndin um frjálsa pólitíska
samræðu í sér útópíska skírskotun til samfélagsforms þar sem
32 Sbr. Jay Bernstein, „Habermas“, Conceplions of Liberty in Political
Philosophy (sjá neðanmálsgrein 30), s. 401.
33 Hér er átt við það sem á þýsku kallast „Öffentlichkeit" og á ensku
„public sphere“ sem er sá vettvangur þar sem almenningsálit myndast
með óheftri umræðu um þau mál sem varða almannahag. „Öffentlich-
keit“ hefur einnig verið þýtt á íslensku sem „almenningur", sbr. N.
Gamham, „Fjölmiðlar og „almenningur“,“ þýð. Stefán Jón Hafstein,
Tímarit Máls og menningar, 1. hefti 1987.
34 Sbr. grein mína „í leit að lýðræði", Skírnir (haust 1991), s. 474—479.
Segja má að þessi lýðræðishyggja sé hin félagslega samsvörun þess
sem ég kalla „valfrelsi" í Siðfrœði lífs og dauða, s. 94.