Hugur - 01.01.1997, Qupperneq 58
56
Stefán Erlendsson
HUGUR
forskriftarlögmál af hugmynd um hagnýta skynsemi.19 En þrátt fyrir
að Habermas geri strangar réttlætingarkröfur er hann ósammála
Gewirth um að siðferðileg breytni sé skynsamleg í þeim skilningi að
hún sé hyggileg.20 Habermas er raunar þeirrar skoðunar að slíkar
röksemdir feli í sér hugtakarugling. Að því leyti stendur samræðu-
siðfræðin nær Kant hvað varðar tengsl skynsemi og siðferðis. Að mati
Habermas nægir það að heimspekileg siðfræði geti sýnt fram á að til
séu ástæður sem ekki byggja á hagsmunum eða löngunum - þ.e.
ástæður sem hvíla á almennum þáttum siðferðilegrar veru fremur en
tilteknum markmiðum og persónulegum skuldbindingum hvers og
eins - sem hægt er að líta á sem grundvöll siðferðilegrar skuld-
bindingar og þar með raunverulegan hvata til siðferðilegrar breytni.
Samkvæmt Habermas er hlutverk siðfræðinnar því fremur tak-
markað. Það felst í að útskýra og réttlæta hið siðferðilega sjónarhorn.
Siðfræðin gefur þannig ekki fyrirheit um aðferð sem dugar til þess að
leysa allan siðferðiságreining sem upp kemur.21 Það er vel hugsanlegt
að sum siðferðileg ágreiningsmál séu óleysanleg. í þeim tilfellum
kemur formbundin siðfræðikenning að litlu gagni. Eins verður stund-
um að fella siðferðilega dóma og taka vandasamar ákvarðanir sem
getur reynst erfitt að að lýsa sem hinum einu réttu.22 Siðfræðingar geta
látið til sín taka við slíkar aðstæður en aðeins sem þátttakendur í
glímunni við þann vanda sem er við að etja. Á hinn bóginn er ekki
allur siðferðiságreiningur með þessum hætti og það hendir að slíkur
ágreiningur sé ranglega settur fram í formi jafnrétthárra en ósættan-
legra hagsmuna sem hefur hugmyndafræðileg áhrif úti í þjóðfélaginu.
19 A. Gewirth, Reason and Morality (Chicago: University of Chicago Press, 1978).
20 Sjá umfjöllun Habermas um Gewirth í „Discourse Ethics,“ s. 101; sjá einnig S. K.
White, „On the Normative Structure of Action: Gewirth and Habermas," í Review
ofPolitics, 44 (1982), s. 282-301.
21 Sjá „Morality and Ethical Life,“ s. 211. Fyrir sumum er slíkur skilningur næg
ástæða til að sniðganga með öllu formbundna siðfræði af þessu tagi; fyrir öðrum er
hann til marks um að ætlunarverk siðfræðinnar hafi mistekist. B. Williams er
fulltrúi fyrir fyrra sjónarmiðið en R. M. Hare það síðara. Sjá B. Williams, Moral
Luck (New York: Cambridge University Press, 1981); R. M. Hare, Moral
Thinking: Its Levels, Method and Point (Oxford: Clarendon, 1981). Afstaða
Habermas lendir mitt á milli þessara tveggja öfga ef svo má segja. Sbr. W. Rehg,
„Discourse Ethics and the Communitarian Critique of Neo-Kantianism,“ í
Philosophical Forum, 22 (1990), s. 120-138, hér s. 120.
22 Fóstureyðingar virðast vera dæmi um slíkt.