Búnaðarrit - 01.01.1947, Page 60
54
BÚNAÐARRIT
allvíðáttumiklu svæði í sandinum — og er þegar rækt-
að þar allmikið af kartöflum. Aðalókostur þessa jarð-
hitasvæðis er skjólleysi, hve illa það liggur og erfið-
lega við samgöngum, langt frá byggðu bóli; og hve
sandurinn er þar hreinn. En alla þessa örðugleika
má þó yfirstíga.
Frá Kelduhverfinu hélt ég svo austur á Hérað í
söfnunarferð fyrir Minjasafn Austurlands. Fór ég nú
um Jökuldal allan og Jökulsárhlíðina. Safnaðist þar
nokkuð, en þó minna en vænta mætti um svo merka
og afskekkta byggð. Ég finn oft sárt til þess á þessum
söfnunarferðum, að þessi söfnun skuli hafa verið svo
seint upp tekin, þar erum við hálfri öld of seint á
ferð. Og margar eru sögurnar, sem ég fæ að heyra
á þessum ferðum um góða, gamla muni, sem voru til
fyrir fáum árum — en eru nú eyðilagðir — af mörgum
ástæðum. Á þessum ferðum er ég auðvitað spurður
margs á bæjunum, sem ég kem á, um garðyrkju og
annað, sem ég reyni þá að leysa úr eftir beztu
getu.
Búnaðarnámskeið, sem tóku oft svo mikinn tíma
hjá mér að vetrarlagi, hafa ekki mætt á mér að þessu
sinni, þar sem ég var utanlands meðan námskeið voru
haldin í Eyjafirði síðastliðinn vetur.
Fyrirlestra hef ég flutt og skrifað margar blaða-
greinar á árunum um garðyrkju og annað og nota
nú ýmsar stundir til að viða að mér efni í garðyrkju-
bók handa alþýðu.
Ragnar Ásgeirsson.