Morgunn - 01.06.1967, Qupperneq 59
MORGUNN
53
finnu dóttur sinni. Biður hún Rollant að útvega sér nokkr-
ar hvannarætur, og hét hann góðu um það. Fáum dögum
síðar kemur hann að Víðivöllum, og segir þá Ingunn: „Nú
færir þú mér víst ræturnar, Rollant minn?“ En hann vildi
reyna gáfu Ingunnar og segist enn ekki vera búinn að ná í
þær. Þá brosir Ingunn og segir: „Ertu að gera að gamni
þínu? Þú þarft ekki að segja mér þetta. Þú grófst þær upp
í Strútsárgilinu í mesta hvassviðrinu. Það fauk af þér húfan,
og lá við, að þú misstir hana í ána. Ég sá þetta allt, drengur
minn.“ Rollant kom þá með ræturnar og sagði, sem var, að
allt stæði þetta heima.
„Nú skeður mikið.“
Séra Stefán Árnason var aðstoðarprestur séra Vigfúsar
Ormssonar á Valþjófsstað 1812-1836. Hann bjó að Valþjófs-
stað og var kvæntur Sigríði dóttur séra Vigfúsar. Svo bar
við, er Ingunn var þar í heimsókn, að þau ræddust við í bað-
stofu, prestur og hún, og voru eigi á eitt sátt. Gekk prestur
um gólf og i nokkuð æstu skapi, og þótti alþýðukonan nokk-
uð djarfmælt við menntaðan mann.
Skyndilega sprettur Ingunn upp úr sæti sínu, lítur út um
gluggann og segir: ,,Nú skeður mikið.“ Presti varð hverft
við og spyr við hvað hún eigi. Þá svarar Ingunn: „Það skeð-
ur mikið á þessari stundu, og þér fáið að vita það á morgun.“
Eftir það felldu þau talið.
Daginn eftir kom sendimaður með þau tíðindi, að kvöldið
áður hefði drukknað í Lagarfljóti séra Sigfús Árnason, bróð-
ir séra Stefáns, en hann var þá aðstoðarprestur að Dverga-
steini. Gerðist það 1. október 1822.
MEKKÍN ÓLAFSDÖTTIR
Hún var dótturdóttir Ingunnar skyggnu og þótti líkjast
ömmu sinni um margt. Hún var meðalkona að hæð, þrekin
um herðar og beinvaxin. Augun módökk og gátu orðið mjög
hvöss, ef henni var mikið í hug. Svo var og um augu ömmu