Morgunn - 01.06.1967, Síða 61
MORGUNN
55
Sigfús kom heim um kvöldið öllum á óvænt nema Mekk-
ínu. Þegar hann hafði heilsað, tók hann eftir því, að hann
hafði enn selskinstöskuna um öxl, sem hann hafði gleymt að
skila heim að Hóli. Fleygði hann henni á rúmstöpulinn. Fóru
þá allir að hlæja og minntust orða Mekkínar um morguninn
um hlutinn, sem hann hefði meðferðis heim.
Síðustu sýnir Mekkínar.
Síðasta daginn, sem Mekkín lifði, þá á Egilsstöðum, kom
Sigfús þangað og ræddi við hana. Þá var hún rúmliggjandi
og hafði fengið slag. Var Sigfús að lesa fyrir hana það, sem
hann hafði skráð um sýnir hennar. Hlýddi hún á og var með
fullu ráði. Allt í einu segir hún: „Flana! Þarna bætist þá ein
við handa þér að skrifa, því ég sé núna dálítið. Það kemur
hérna maður frá Hóli, og hafðu það að marki, að ég sé þetta
rétt, að hann kemur hérna fyrst að borðinu til þín og heils-
ar þér fyrstum." Sigfús sat fjarst dyrum, og því brosti fólkið
og sagði, að undarlegt væri það, ef þeim yrði fyrst heilsað,
sem f jarstur sæti baðstofudyrunum.
Lítilli stundu síðar er opnuð hurðin og kemur inn Bjarni
á Hóli. Hann nemur staðar á gólfinu og segir: „Komið þið
öllsömul sæl!“ Síðan gengur hann til Sigfúsar og heilsar hon-
um með handabandi og síðan hverjum af öðrum í baðstof-
unni.
HINRIK ÞORSTEINSSON
Hinrik Þorsteinsson bjó að Hafursá í Skógum á Fljóts-
dalshéraði á fyrri hluta 19. aldar. Um hann var sagt, að
hann sæi í gegn um holt og hæðir, svo var hann f jarskyggn.
Sýnirnar sá hann í vöku líkt og þær Ingunn og Mekkín,
sem áður getur. Er af sumum sögnum um hann að ráða, að
hann hafi getað framkallað fjarsýnir, þegar hann var um
það beðinn, en stundum er sem þær hafi komið sjálfkrafa.
Eftirfarandi sögur eru skráðar af Sigfúsi Sigfússyni. (S. S.:
Isl. þjóðsögur II, bls. 191—197), en eru hér lítið eitt styttar.