Morgunn - 01.06.1967, Side 43
MORGUNN 37
vikið, að frú Willett eigi nokkuð skylt við frú Tennant og því
síður, að þær séu ein og sama konan.
Skylt er að viðurkenna það, að öll þau atriði varðandi frú
Tennant í þeim þrem bréfum, sem getið hefur verið hér að
framan, voru fyrir hendi í vitund sonar hennar og sennilega
einnig Salters að nokkru leyti. Sonurinn gat að sjálfsögðu
ekki vitað um það, að allar þær upplýsingar, sem fram koma
í bréfunum varðandi móður hans, væru réttar, nema vegna
þess, að honum var þetta allt kunnugt.
Sú skýring er því engan veginn útilokuð, að G. Cummins
hafi getað lesið í hug Tennants, sem hún þá aldrei hafði séð,
og heima átti í öðru landi, en sennileg er hún ekki. Aðeins í
þessum þrem stuttu bréfum koma fram svo mörg rétt atriði
og svo nákvæm lýsing á ævi og einkennum frú Tennant, að
ég veit að minnsta kosti engin dæmi til þess, að hingað til
hafi verið unnt að sanna né heldur færa frambærilegar líkur
fyrir því, að fjarhrif á milli lifandi manna hafi átt sér stað
í svo ríkum mæli.
1 þessu sambandi skiptir það þó nærri því ennþá meira
máli og hefur ennþá sterkara sönnunargildi, að hver sá, sem
les þessi 40 bréf með vakandi athygli, hlýtur að finna, að
að baki þeim er svo heilsteyptur og skýr persónuleiki, sem
þó er um leið raunsannur að sögn þeirra, sem þekktu frú
Tennant, að með öllu er óhugsandi, að G. Cummins sjálf
hefði getað búið hann til vitandi vits, líkt og rithöfundur
býr til ákveðnar persónur í skáldsögu.
Andstæðingum spiritismans er gjarnt að grípa til þeirra
fullyrðinga, að miðlar séu ekkert annað en ótíndir loddarar,
sem vísvitandi grípi til alls konar svika og blekkinga til þess
að nota sér trúgirni fólks. Þeir eru ósparir á að halda því á
loft, að svik hafi sannazt á ýmsa þeirra, og taka allar sögu-
sagnir þar um sem góða og gilda vöru og eru þar allt annað
en kröfuharðir um sannanir. Mér mundi því engan veginn
koma á óvart, þótt einhverjir kynnu að segja, að Geraldine
Cummins hafi að öllum líkindum sjálf samið þessi bréf í
blekkingarskyni. Henni hafi tekizt að afla sér áður upplýs-