Viðar - 01.01.1936, Blaðsíða 40
[Viðar
Núpsskóli 1906—1936.
Eftir Jóhannes Davíðsscm.
Fyrstu drög.
Árið 1904 fékk séra Sigtryggur Guðlaugsson, prestur
að Þóroddstað í Kinn, veitingu fyrir Dýrafjarðarþingum.
Séra Sigtryggur kom þó eigi að prestakallinu fyrr en
vorið 1905. Settist hann að á Núpi á heimili Kristins Guð-
laugssonar, bróður síns, en afsalaði sér ábúð á jörð þeirri
í prestakallinu (Gerðhömrum), sem þá var útlagt prests-
setur hér.
Var hann þá nýlega búinn að missa fyrri konu sína,
Ólöfu Sigtryggsdóttur, en þeim hafði ekki orðið barna
auðið, og mun það hafa stutt að því, að hann fýsti ekki
lengur að fást við búskap, ásamt prestsstarfinu.
Á Þóroddsað bjó hann góðu búi, og mun honum hafa
verið vel sýnt um búsýslu.
Séra Sigtryggur var því einhleypur maður, sem ekkert
hafði við bundið, en það varð ekki lengi, að hann léti sér
nægja þau viðfangsefni, er prestsstarfið hafði að bjóða.
Ég vil í þessu sambandi taka það fram, vegna þeirra,
sem ekki þekkja manninn persónulega eða prestsstarf
hans hér, að hann hefir rækt prestsstarfið af mikilli alúð,
þennan mannsaldur, sem hann er búinn að þjóna Dýra-
fjarðarþingum, og hann messar ennþá, til skiptis á hinum
þrem kirkjum sínum, þegar heilsa, veður og aðrar óvið-
ráðanlegar ástæður ekki hamla, þrátt fyrir nær 74 ára
aldur.
Sumarið 1906 fór séra Sigtryggur utan til Danmerkur,
og þaðan til Finnlands, á kristilegan fund stúdenta á
Norðurlöndum. Hafði hann jafnframt í huga að kynna
sér sem bezt Grundtvigska skólastefnu og fór í þeim til-
gangi til Jótlands.