Uppeldi og menntun - 01.01.2011, Blaðsíða 5
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 20 (1) 2011 5
frá ritstjóra
Fyrsti hluti tímaritsins er viðtal við Jón Torfa Jónasson sem tók við starfi forseta
Menntavísindasviðs þegar Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands sameinuðust.
Í viðtalinu við Jón Torfa, sem nefnist „Samfélagið verður að gera upp við sig til hvers
skóli er“, er rætt við hann um lífs- og starfshlaup hans og um sýn hans á menntamál.
Jón Torfi á að baki langan starfsferil við menntamál og hefur rannsakað fortíð sem nú-
tíð og spáð fyrir um framtíðina. Í viðtalinu lýsir hann viðhorfum sínum til menntunar
og spyr gagnrýninna spurninga um helstu viðfangsefni nútímans og úrlausnarefni
framtíðarinnar.
Auk viðtalsins við Jón Torfa Jónasson eru í heftinu fjórar ritrýndar greinar og fimm
ritdómar um sex rit á sviði námsefnis og rannsókna. Ritrýndu greinarnar spanna ólík
viðfangsefni á sviði menntunarfræða og fjalla um orðaforða, leikskólastefnur, nám-
skrá hönnunar og smíði og loks námsmat í grunnskólum. Þrír dómanna eru um nýjar
bækur og námsefni á sviði kynjajafnréttis ætlaðar þremur ólíkum skólastigum, einn
dómur er um tvær bækur um tónlistarkennslu og einn er um bók sem lýsir rannsókn
á aðstæðum nemenda með þroskahömlun.
Heftið sem nú lítur dagsins ljós er fyrra hefti 20. árgangs. Í öllum meginatriðum er
fylgt sömu ritstjórnarstefnu og áður, það er greinar eru ritrýndar. Núverandi ritnefnd
stefnir þó að því að fjölga ritdómum frá því sem verið hefur. Fáeinar minni háttar
breytingar hafa verið gerðar á formi greina, svo sem að bæta við efnisorðum og upp-
lýsingum um feril greinar. Tímaritið uppfyllir nú 17 skilyrði af 18 sem tímarit eru
metin eftir í stigakerfi fræðimanna í háskólunum.
Unnið er að útgáfu tímaritsins á netinu og má nú finna flest hefti þess á vefnum
timarit.is eða á vef Uppeldis og menntunar, vefsetur.hi.is/uppeldi_og_menntun. Form-
leg útgáfa tímaritsins á netinu verður kynnt síðar en stefnt er að því að allt efni tíma-
ritsins, ársgamalt eða eldra, sé aðgengilegt á vef, auk þess sem valið efni er stundum
birt strax, t.d. þemaefni um Bolognaferlið í íslenskum háskólum sem birtist í 1.–2. hefti
2010. Leiðbeiningar fyrir greinahöfunda eru nú eingöngu á netinu, bæði á íslensku og
ensku.
Ritnefnd þakkar öllum sem hafa lagt hönd á plóg við útgáfu þessa heftis. Ritnefnd-
in þakkar sérstaklega óeigingjarnt starf ónefndra ritrýna sem brugðust hratt og vel
við. Án þess háttar sjálfboðavinnu er útgáfa ritrýndra greina óhugsandi.