Uppeldi og menntun - 01.01.2011, Blaðsíða 109
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 20 (1) 2011 109
meyVant ÞÓrÓlfSSon, ingVar SigUrgeirSSon og JÓHanna KarlSdÓttir
Eins og áður var nefnt tilgreina skólar tiltölulega sjaldan atriði sem má heimfæra á
vitsmunasvið í flokkunarkerfi Blooms og félaga þegar skoðað er hvað er metið. Þess
vegna kemur þessi dreifing á tíðni matsaðferða svolítið á óvart, a.m.k. hvað varðar
miðstig og unglingastig, því hefðbundin próf og kannanir hljóta óhjákvæmilega að
fela í sér mat á vitsmunalegri hæfni. Reyndar er fjölbreytni kannana og prófa mikil
(flokkur I). Fyrir utan hefðbundnar kannanir og próf eru nefnd annarpróf, áfangapróf,
gagnapróf, heimapróf, skyndipróf, svindlpróf og munnleg próf. Athygli vekur að
verkleg próf eru ekki nefnd, en það hlýtur að vekja spurningar þegar náttúruvísindi
eru annars vegar. Hins vegar má lesa úr gögnunum að beitt er margvíslegum óskil-
greindum matsaðferðum á námstíma, hugsanlega einhvers konar huglægu mati sem
kann að vera misformlegt eða óformlegt (flokkur II á mynd 2). Líklegt er að stuðst
sé við einhvers konar bókhald með hjálp gátlista, matskvarða eða með skráningu í
gagnagrunninn Mentor, sem flestir skólar nota, þótt það komi ekki nógu skýrt fram.
Símat er einnig nefnt nokkrum sinnum, helst á miðstigi (flokkur III á mynd 2), og undir
flokki IV koma fyrir sjálfsmat (nemendamat), matslistar, leiðsagnarlistar, stöðugt og
fjölbreytt mat (samt ekki kallað símat) og á einum stað á yngsta stigi: „Munnleg, skrif-
leg og verkleg skil, bæði einstaklingslega og í hópi.“ Loks skal áréttað að stundum var
ekki beinlínis getið um matsaðferðir. Samt mátti jafnan lesa úr gögnunum hvers eðlis
aðferðirnar voru, oftast einhvers konar óformlegt mat á námstímanum.
Hvers eðlis var námsmatið?
Þegar rætt er um eðli námsmats er vísað til viðmiða og túlkunar á niðurstöðum. Reynt
var að greina að hvaða marki matið teldist megindlegt, þ.e. túlkun niðurstaðna byggðist
á mælingum, og að hvaða marki það virtist eigindlegt, þ.e. túlkun byggðist fremur á
lýsingum án mælinga og hlutfallstalna. Dæmi um megindlegt: „Próf 60%, vinnubók
og vinna í tímum 40%“ (úr skólanámskrá skóla nr. 9 af 58, námsmat í náttúrufræði
í 6. bekk). Þótt matið sjálft hafi hugsanlega verið eigindlegt hér að hluta, t.d. mat á
vinnubók og vinnu í tímum, var það kynnt eins og það væri fellt undir mælistiku með
vægi upp á 40% af heildareinkunn. Dæmi um eigindlegt: „Áhersla er lögð á stöðugt
og fjölbreytt námsmat og tekið tillit til vinnubragða, virkni, áhuga og frammistöðu
nemenda“ (úr skólanámskrá skóla nr. 39 af 58, námsmat í náttúrufræði í 6. bekk).
Þannig var reynt að flokka lýsingarnar út frá því hvort matið virtist alfarið eigind-
legt, alfarið megindlegt, að hluta hvort um sig o.s.frv. Helsta viðmiðið var hvort fram
kæmi hlutfallslegt vægi mismunandi þátta eða ekki, t.d. prófa eða verkefnabóka. Tafla
1 sýnir dreifinguna.