Uppeldi og menntun - 01.01.2011, Blaðsíða 93
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 20 (1) 2011 93
H r a fn H i l d U r r ag n a rS d Ót t i r
að gera enn betur og tryggja að miklir þroskamöguleikar unglingsáranna nýtist sem
best, meðal annars til að efla orðaforða unglinga og færni í flókinni málnotkun og
textagerð.
MIÐILL er sú breyta sem ásamt ALDRI hefur langmest áhrif á virkjaðan orðaforða
eins og hann var metinn í þessari rannsókn. Eins og tilgátur spáðu notuðu þátttakendur
í öllum aldursflokkum hlutfallslega fleiri inntaksorð í ritmáli en talmáli og hærra hlut-
fall nafnorða, sem hvort tveggja sýnir að inntak ritaðra texta þeirra er merkingarlega
þéttara en inntak texta um sama efni mæltra af munni fram. Meðallengd orða er líka
meiri í ritmáli en talmáli, sem líklega bendir til þess að í ritmálinu virki höfundar í ríkara
mæli sértæk, beygingarlega flókin og sjaldgæf orð. Loks er orðaforðinn fjölbreytilegri
í rituðu textunum, bæði samkvæmt VocD-mælingunni og fjölbreytileikastuðli nafn-
orða. Allt á þetta við um alla fjóra aldursflokka og báðar TEXTATEGUNDIR, og má
skýra með mismunandi hefðum ritmáls og talmáls sem og með ólíkum boðskipta-
aðstæðum rit- og talmáls sem fela í sér mismikið álag á vinnsluminni og vinnslugetu.
Íslensku niðurstöðurnar eru einnig í samræmi við niðurstöður systurrannsókna og
aðrar erlendar rannsóknir, þar sem kerfisbundinn munur hefur reynst vera á milli
þéttleika talmáls og ritmáls (Biber, 1988; Biber o.fl., 1999; Halliday, 1985; Johansson,
2009; Ravid og Berman, 2006; Strömqvist o.fl., 2002).
Munur á orðaforða í rit- og talmáli breytist með ALDRI. Hans gætir strax í 11 ára
hópnum en eykst með ALDRI, eins og spáð hafði verið, og varð langmestur hjá full-
orðnum textahöfundum. Mælitölur breyttust tiltölulega lítið með ALDRI í talmáls-
textunum; vaxandi mun má rekja til þess að auðlegð orðaforðans þróast hraðar í
rit- en talmáli og tekur stórt stökk í hópi fullorðinna, þar sem munurinn á orðaforða
ritmáls og talmáls verður jafnframt langmestur. Ein nærtæk skýring á vaxandi mun á
orðaforða í rit- og talmáli með ALDRI er sú að ný orð sem bætast í orðaforðann eftir
miðbernsku eru að langmestu leyti (ritmáls)orð, sem í vaxandi mæli reynir á í lestri og
ritun eftir því sem ofar dregur í skólakerfinu, en sjaldan koma fyrir í daglegu talmáli.
Hversu vel textahöfundi tekst að virkja þennan orðaforða við gerð texta eins og þeirra
sem hér um ræðir fer bæði eftir valdi hans á MIÐLINUM og boðskiptaaðstæðum,
ekki síst með tilliti til tíma. Þetta tvennt hefur síðan áhrif á það að hve miklu leyti
hann hefur svigrúm til að nýta vinnsluminni sitt til að hnitmiða framsetningu, meðal
annars með nákvæmni og blæbrigðum í orðavali. Eins og lýst var í inngangi veita
aðstæður ritmálsins betra svigrúm til að virkja auðugan orðaforða en boðskipta-
aðstæður talmálsins, og vald á MIÐLINUM og textabyggingu eykst með menntun og
aldri.
Samkvæmt þeim vísbendingum sem beitt var í þessari rannsókn birtist auðlegð
orðaforðans þannig í mun ríkara mæli í ritmáli en í talmáli, og vettvangur framfara og
þróunar blæbrigðaríks og hnitmiðaðs orðaforða á unglingsárum og síðar virðist vera
á ritvellinum þar sem tíma-, minnis- og úrvinnslutakmörkunum talmálsins er aflétt,
bæði af textahöfundi og viðtakanda.
Áhrif TEXTATEGUNDAR á orðaforða eru líka marktæk, en ekki eins víðtæk eða
sterk og áhrif MIÐILS. Textahöfundar semja efnislega þéttari álitsgerðir en frásagnir;
þær innihalda hlutfallslega fleiri inntaksorð á kostnað kerfisorða og auk þess er hærra
hlutfall inntaksorðanna nafnorð en í frásögnum. Meðallengd orða er einnig meiri í