Uppeldi og menntun - 01.01.2011, Blaðsíða 111
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 20 (1) 2011 111
meyVant ÞÓrÓlfSSon, ingVar SigUrgeirSSon og JÓHanna KarlSdÓttir
einkunnir byggðar á skilum heimavinnu. Loks eru nefndar tímasetningar fyrir ein-
kunnir, þ.e. einkunnir í janúar og júní og lokaeinkunnir og annareinkunnir.
Umræða
Í þessari grein hefur verið leitað svarað við því hvað megi lesa úr skólanámskrám
grunnskóla um námsmat í náttúrufræði. Greint hefur verið frá áhersluþáttum í náms-
mati á sviði náttúrufræði í 3., 6. og 9. bekk eins og þeir birtast í skólanámskrám grunn-
skóla. Það skal undirstrikað að um var að ræða greiningu á textum skólanámskráa,
en framkvæmdin kann samt sem áður að hafa verið önnur í einhverjum skólanna
en skráð var í áætlanir. Enn fremur skal áréttað að ákvæði um námsmat í almennum
hluta skólanámskráa reyndust ekki alltaf í fullu samræmi við það sem birtist í áætlun-
um í námsgreinum, t.d. í náttúrufræði. Þetta virtist til dæmis eiga við um tilgang og
stefnumörkun (Meyvant Þórólfsson, Ingvar Sigurgeirsson og Jóhanna Karlsdóttir,
2009). Í niðurstöðum McMillan og félaga (2002) kom svipað fram, þ.e. mikilvæg
atriði í námsmati (hvað metið, hvernig o.s.frv.) reyndust breytileg og ólík innan sömu
skólastofnana sem og milli skóla. Rannsókn McMillan (2001) á námsmati á unglinga-
stigi leiddi í ljós að megindlegt mat með hefðbundnum skriflegum prófum reyndist
algengara í greinum eins og náttúruvísindum og stærðfræði en öðrum greinum. Það
kemur einnig heim og saman við niðurstöður sem hér var lýst. Í því sambandi er rétt
að benda á að samræmd lokapróf við lok skyldunáms voru lögð fyrir í náttúruvísind-
um hérlendis á tímabilinu 2002 til 2007, og kann það að hafa mótað nám og kennslu
og þar með námsmat að þessu leyti hjá þeim skólum sem voru athugaðir. Rannsóknin
hefur þó gefið mikilvægar vísbendingar um það sem helst er lögð áhersla á í náms-
mati í náttúrufræði í grunnskólum landsins. Ályktanir okkar eru ýmist dregnar af
almennum upplýsingum um námsmat eða sértækum upplýsingum um námsmat í
náttúrufræði – og stundum þurfti jafnvel að geta í eyður óljósra upplýsinga.
Hvað var metið?
Úttekt á skólanámskrám bendir til þess að námsmat í íslenskum grunnskólum sé
undantekningarlaust markviðmiðað (e. criterion-referenced), þ.e. kennarar eða aðrir
sem meta taka mið af fyrirfram gefnum markmiðum, námsefni eða ætluðum afrakstri
námsins (e. intended learning outcomes) þegar þeir skipuleggja námið og meta það.
Þetta er þó misskýrt í þeim skólanámskrám sem skoðaðar voru. Flokkunarkerfi
Blooms og félaga eða seinni tíma útfærslur á þeim (sjá t.d. Marzano, 2001) eru dæmi
um slík viðmið, sem margir hafa notað sem grundvöll prófagerðar og annars náms-
mats (t.d. Gronlund og Waugh, 2009; Miller o.fl., 2008). Þetta á til dæmis við um sér-
fræðinga skólamálayfirvalda sem mótað hafa námskrárgerð og mat gegnum tíðina
hérlendis (Menntamálaráðuneytið, 1979) og höfunda samræmdra prófa (Sigurgrímur
Skúlason o.fl., 2003). Í kerfi Blooms og félaga er ekki einungis um að ræða vitsmuna-
lega námsþætti, sem jafnan eru metnir á skriflegum prófum, svo sem þekkingu, skiln-
ing og leikni, heldur einnig ýmsa þætti og markmið er snerta frammistöðu, verklega
færni, virkni, áhuga á námi, viðhorf, gildismat og tilfinningalega þætti.