Uppeldi og menntun - 01.01.2011, Blaðsíða 40
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 20 (1) 201140
ÓlÍKar áHerSlUr Í leiKSKÓlaStarfi
Hlutverk leikskólakennarans
Mikill munur var á því hvernig verkefni starfsfólks voru tilgreind í skólanámskrám
leikskólanna eftir því hver starfsaðferð þeirra var. Í þeim leikskólum sem störfuðu eftir
Reggio Emilia-aðferðunum var litið svo á að helsta hlutverk kennarans væri að skapa
börnunum hvetjandi umhverfi og miða efni við þroska barnanna og leiða þau áfram
í þekkingarleit sinni. Áætlanagerð var í höndum starfsfólks í báðum leikskólunum
sem störfuðu samkvæmt Reggio Emilia-aðferðunum og var mið tekið af áhugasviði
barnanna. Slík áætlanagerð krefst áhuga starfsfólks á daglegum viðfangsefnum og að
það styðji börnin í viðfangsefnum þeirra. Fram kom í rýnihópi foreldra og starfsfólks
að starfsfólkið styddi við hugmyndir barnanna og væri til staðar til að útvíkka og
dýpka hugsun þeirra. Foreldri hafði komið auga á þetta atriði:
Mér finnst þetta líka lýsandi fyrir það að allt starfsfólkið hérna er áhugasamt. Það
sýnir áhuga og maður tekur alltaf strax eftir því ef það er einhver einn sem er ekki
með áhuga þá verður það svo áberandi, maður finnur það svo vel. Ég hef unnið með
börnum og þegar það er verið að gera svona plön, þá tekur starfsfólkið aldrei þátt.
Það er matað eins og krakkarnir. Þú átt að gera þetta af því að þau hafa ekkert um
þetta að segja, fljóta með. Mér finnst það leiðinleg vinnubrögð að fljóta með og hafa
ekkert um þetta að segja. (Móðir á Kletti í rýnihópi)
Greinilegt er að þessi móðir telur mikilvægt að starfsfólk taki þátt í áætlanagerð og
sé áhugasamt í starfi. Það er í samræmi við skólanámskrá leikskólans en þar er lögð
áhersla á að starfsfólk hlusti á hugmyndir barnanna, spyrji þau opinna spurninga og
hvetji þau til gagnrýninnar könnunar. Starfsfólkið þarf að vera vel meðvitað um áhuga
barnanna, sem leiðir starfið, eins og fram kom hjá leikskólakennara í Gullkistunni:
En á móti kannski má segja sem starfandi leikskólakennari að þá krefst þessi stefna
meira af starfsfólki af því að börnin geta kúvent öllu skipulagi. Þó að þú sért búin að
plana í dag, plan A, þá ferðu kannski á plan B eða gerir allt annað. Þú getur séð kött
eða stórt tré og þá getur áhugi barnanna breyst þannig að þú verður að vera tilbúin
til að breyta og það heillar mig rosalega mikið.
Svo opið skipulag virðist vera krefjandi fyrir starfsfólk og fram kom hjá leikskóla-
kennurum í rýnihópum að þegar leikskólar glíma við lágt hlutfall fagfólks, mikla
starfsmannaveltu og manneklu telja þeir meiri hættu á að ekki sé unnið samkvæmt
þessum hugmyndum og að lítið verði úr spennandi þemavinnu.
Í þeim leikskólum sem störfuðu samkvæmt Reggio Emilia-aðferðunum voru verk-
efni barnanna og hugsanir skráðar og upplýsingarnar notaðar við að undirbúa vinnu
barnanna. Í leikskólanum Kletti fengu börnin þemabækur með sér heim tvisvar á ári
með afrakstri vinnu sinnar og því sem hafði verið skráð um þau. Þar mátti meðal
annars finna ljósmyndir, teikningar og gullkorn barnanna. Skráning á samtölum
barnanna var enn fremur sýnileg á veggjum leikskólanna og í fréttabréfum til for-
eldra. Leikskólakennarar gátu einnig fylgst með þroska barnanna með markvissri
skráningu. Skólastjórinn í leikskólanum Kletti lýsti þessari vinnu í viðtali á þessa leið: