Uppeldi og menntun - 01.01.2011, Page 82
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 20 (1) 201182
textagerÐ Barna, Unglinga og fUllorÐinna:
hVað Er skoðað hér?
Eins og fram hefur komið snýst rannsóknin nú um að kanna áhrif frumbreytanna
ALDURS (11, 14, 17 ára og fullorðnir), MIÐILS (ritmál og talmál) og TEXTATEGUNDAR
(frásagnir og álitsgerðir) á orðaforðann sem virkjaður er við textagerð frá eigin brjósti.
Hér fara á eftir rannsóknarspurningarnar sem leitað er svara við í þessari grein og
tilgátur um svör við þeim á grundvelli þess sem fram hefur komið í köflunum hér að
framan (nánari umfjöllun um þá mælikvarða sem notaðir eru í þessari rannsókn til að
meta fjölbreytileika, þéttleika og aðra eiginleika orðaforðans er að finna í undirkafl-
anum Mælitæki í næsta kafla).
1. Er munur á orðaforða eftir textategundum? Vegna eðlismunar á álitsgerðum og
frásögnum er þess vænst að:
(a) merkingarlegt inntak álitsgerða sé að jafnaði þéttara en frásagna (hlutfall
inntaksorða – ekki síst nafnorða – sé hærra hlutfall af heildarfjölda orða í hverjum
texta)
(b) sértækari orð séu virkjuð í álitsgerðum en í frásögnum (endurspeglast m.a. í
lengri orðum)
(c) ekki er hins vegar ástæða til að ætla að orðaforðinn sé fjölbreytilegri (innihaldi í
ríkara mæli mismunandi orð og orðmyndir) í annarri textategundinni en hinni.
2. Er munur á orðaforða í ritmáli og talmáli? Gert er ráð fyrir að ólíkar boðskipta-
aðstæður, tímaskorður (processing constraints) og hefðir ritmáls og talmáls hafi þau
áhrif að:
(a) ritmálstextar verði merkingarlega þéttari en talmálstextar (hlutfall inntaksorða,
ekki síst nafnorða, að jafnaði hærra en í talmáli)
(b) í ritmáli sé notaður fjölbreytilegri orðaforði en í talmáli
(c) höfundar beiti í ríkara mæli sértækum og sjaldgæfum orðum í ritmáli en talmáli,
sem endurspeglist meðal annars í lengri orðum.
3. Hvernig þróast orðaforði, sem virkjaður er í textagerð, með aldri? Fyrri rannsóknir
á þessum sömu gögnum sýndu að með aldri verða textarnir lengri, ítarlegri, efnis-
meiri og flóknari (Hrafnhildur Ragnarsdóttir, 2007). Búist er við samhliða breytingum
á orðaforðanum og að birtingarform þeirra verði meðal annars:
(a) merkingarlega þéttari textar með aldri (hærra hlutfalli inntaksorða, ekki síst
nafnorða)
(b) fjölbreytilegri orðaforði, bæði almennt og í nafnorðum sérstaklega
(c) nákvæmari og sértækari orðaforði, sem endurspeglast meðal annars í lengri
orðum.
Á unglingsárunum (eftir 13–14 ára aldur) skapast forsendur (vitsmunaþroski, læsi,
menntunarstig) fyrir framförum í þróun orðaforða. Tilgáta um framfarakipp á ung-
lingsárunum er þó sett fram með fyrirvara í íslenska úrtakinu, því niðurstöður ann-
arra mælinga á textagæðum sama hóps (textalengd, setningalengd, lengd málsgreina
og fleiru, sjá Hrafnhildur Ragnarsdóttir, 2007) bentu þvert á móti til stöðnunar á milli
14 og 17 ára hópanna.