Andvari - 01.06.2011, Qupperneq 14
12
GUÐRÚN KVARAN
ANDVARI
er nú til frásagnar. Ég mun ekki heldur vitna í bréf sem hann skrifaði
mér á Þýskalandsárum mínum frá 1969 til ársloka 1977 þar sem mér
hugnast ekki tilvísanir í bréf látinna manna. Ég mun nota þær heimildir
sem mér og öðrum eru aðgengilegar til að segja frá einum merkasta
húmanista Islendinga á síðustu öld og læt oft samtímamenn Jakobs lýsa
honum sem manni og fræðimanni.
Ætt og uppruni
Jakob Benediktsson, eða Sigurður Jakob eins og hann hét fullu nafni,
fæddist á Fjalli í Seyluhreppi í Skagafirði 20. júlí árið 1907. Foreldrar
hans voru hjónin Sigurlaug Sigurðardóttir (1878-1974) og Benedikt
Sigurðsson, bóndi og söðlasmiður á Fjalli í Sæmundarhlíð (1865-1943).
Faðir Benedikts var Sigurður Benediktsson, bóndi og söðlasmiður
á Stóra-Vatnsskarði, síðar á Auðólfsstöðum í Langadal og síðast á
Botnastöðum. Kona hans var Margrét Valgerður Klemensdóttir, dóttir
Klemensar Klemenssonar, bónda í Bólstaðarhlíð, og Ingibjargar,
konu hans. Foreldrar Sigurlaugar voru Sigurður Bjarnason, bóndi á
Geirmundarstöðum en síðar á Sjávarborg, Glæsibæ, Hafsteinsstöðum
og síðast á Stóra-Vatnsskarði. Kona hans var Salbjörg Sölvadóttir, dóttir
Sölva Ólafssonar á Borgarlæk á Skaga, síðar á Hóli á Skaga, Fossi og
síðast Steini á Reykjaströnd. Kona hans var Ingunn Jónsdóttir.2
Jakob var elstur þriggja systkina. Næstur honum var bróðir hans,
Halldór, bóndi á Fjalli (1908-1991) en yngst var systirin Margrét
(1913-1942) en hún var húsfreyja á Stóra-Vatnsskarði og gift Benedikt
Péturssyni bónda þar (1892-1964). Þau áttu tvo syni, Benedikt, bónda
á Stóra-Vatnsskarði, og Grétar, bifvélavirkja á Akureyri. Benedikt
og kona hans, Marta Magnúsdóttir, eignuðust fimm börn, Margréti,
Benedikt, Astu Nínu, Halldóru og Guðmund, og Grétar og kona hans,
Erna Magnúsdóttir, tvö börn, Benedikt og Sigurlaugu.
Kona Halldórs var Guðrún Þóra Þorkelsdóttir (1918-1995). Þau áttu
eina kjördóttur, Margréti (1946-1992) sem giftist Ólafi Þ. Ólafssyni
vélstjóra. Saman áttu þau þrjú börn, Þóru Halldóru, Bryndísi og Jakob
Benedikt. Ljóst var af ummælum Jakobs og konu hans að Margrét var
þeim mjög kær. Það mátti merkja af hlýjunni í rómnum þegar á hana
var minnst en hún bjó hjá þeim á meðan hún stundaði nám í Reykjavík.
Sjálf áttu Jakob og Grethe engin börn.