Andvari - 01.06.2011, Side 48
46
GUÐRÚN KVARAN
ANDVARI
verk af þessu tagi var seinlegt, mundi taka áratugi með fáum starfs-
mönnum. Svo virðist sem samkomulag hafi ríkt innan hópsins, sem hóf
verkið, um hvað framundan væri og hvað þyrfti að lesa, og ekki hafi
verið talin ástæða til að festa það á blað.
Sem forstöðumaður Orðabókarinnar þurfti Jakob oftar en einu sinni
að kynna þetta stóra verkefni. Elsta greinin birtist í Scripta Islandica63
1955 undir titlinum Det islandske ordbogsarbejde ved lslands universi-
tet. Þá hafði verkið staðið í rúm tíu ár og ljóst var að óhemju mikið var
eftir. Styttri grein birtist í Stúdentablaðinu64 sama ár í tilefni af degi
stúdenta 1. desember.
Rúmum tíu árum síðar skrifaði Jakob aftur um orðabókarverkefnið og
nú í ritið Nordiska sprákfrágor65 sem gefið var út af sænsku málnefnd-
inni 1966-1967. Jakob varð um það leyti formaður íslenskrar málnefndar
og er það hugsanlega ástæða þess að hann skrifaði í þetta rit.
Arið 1978 birtist síðasta grein Jakobs um þetta efni í ársskýrslu
Selskabfor nordisk filologi fyrir árin 1974-1976.66 Jakob var að nálgast
verklok við Orðabókina og hefur líklega verið beðinn um grein af því
tilefni. Séu þessar fjórar greinar bornar saman sést að verkinu þokaði
áfram, það var í föstum farvegi en mikið verk var enn óunnið ef einhver
mynd ætti að verða á þeirri sögulegu orðabók sem stefnt var að.
Jakob flutti fyrirlestur á Kjarvalsstöðum um Orðabók Háskólans
í október 1974. Birtist hann í Tímanum í febrúar árið eftir. Lokaorð
Jakobs voru:
Fyrir íslenzkudeild Háskólans er Orðabókin löngu orðin ómissandi stofnun,
jafnt stúdentum sem kennurum. Orðabókin er opin vinnustofnun, þar sem
margir fleiri starfa og hafa starfað en eiginlegir starfsmenn Orðabókarinnar.
En vitaskuld verður engin orðabók að fullu notuð fyrr en hún kemst á prent, og
ég vildi mega ljúka þessum orðum með þeirri frómu ósk, að þess dags verði
ekki allt of langt að bíða.67
Ekki hefur þessi fróma ósk Jakobs ræst og hætt er við að þess verði enn
langt að bíða að hinni sögulegu orðabók verði lokið.
Rétt er að minnast á eina grein enn eftir Jakob sem tengist starfi við
sögulega orðabók. Það er afar gott yfirlit, og í raun hið eina, yfir sögu
íslenskra orðabóka, einkum á 19. öld. Greinin birtist í Andvara 1969 og
hefst á stuttri umfjöllun um 17. aldar orðabækur Magnúsar Ólafssonar
í Laufási og Guðmundar Andréssonar og endar á orðabókarstarfi
Hallgríms Schevings, kennara í Bessastaðaskóla.68