Andvari - 01.06.2011, Page 58
56
GUÐRÚN KVARAN
ANDVARI
Tónlistin
Eins og þegar er komið fram ólst Jakob upp við söng og orgelleik á
æskuheimili sínu á Fjalli. Faðir hans stofnað fyrsta kórinn í Skagafirði
sem eitthvað kvað að, Bændakórinn, og er næsta víst að Jakob hefur
tekið þátt í söng heima á Fjalli.
Á leið til Kaupmannahafnar kynntist hann Gísla Gestssyni, eins og
áður er fram komið, og stunduðu þeir saman það tónlistarlíf sem þeir
höfðu ráð á. Minntist Jakob oft á það hvernig hann lærði að lesa nótur
með Gísla, glamra með honum á píanóið sem þeir höfðu tekið á leigu
og sækja með honum tónlistarviðburði.
í viðtalinu við Jakob í Tímanum 1975, sem áður er vísað til,84 var
hann beðinn um að segja hver væru helstu áhugamál hans. Hann nefndi
bókmenntir og tónlist og er ljóst af því sem fram kemur að tónlist hefur
átt afar mikinn þátt í lífi hans.
Eftir að Jakob lauk námi og fjárhagur varð rýmri sóttu þau Grethe
tónleika Útvarpshljómsveitarinnar í konsertsal danska útvarpsins og
aðra tónleika sem buðust.
Áhugi Jakobs á söng hefur án efa verið ástæða þess að hann réðst
í það ásamt Jóni Helgasyni og Sigfúsi Blöndal að gefa út Söngbók
Hafnarstúdenta árið 1937. Síðar eða 1943 gáfu þeir Jakob og Jón út
íslenska söngva á vegum Félags íslenzkra stúdenta í Kaupmannahöfn
en eins og fram hefur komið var gjarnan sungið á kvöldvökum þess.
Grethe og Jakob sóttu tónleika Tónlistarfélagsins reglulega eftir
að þau fluttu til Islands og tónleika Sinfóníuhljómsveitar íslands frá
stofnun hennar árið 1950. Jakob skrifaði stutta grein í Tímarit Máls og
menningar^ það ár þar sem hann fagnar hljómsveitinni og gerir alvar-
legar athugasemdir við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að fella niður
100 þúsund króna styrk til hennar. Finna þurfi ráð til þess að unnt verði
að halda rekstrinum áfram. Það tókst og sóttu þau hjón bæði tónleika
reglulega meðan heilsan leyfði.
Nánari tengsl voru við Kammermúsikklúbbinn. Guðmundur Vil-
hjálmsson, formaður stjórnar klúbbsins, sagði frá því í minningar-
grein að áskrifendalistar hefðu legið frammi í bókaverslun Sigfúsar
Eymundssonar þegar klúbburinn var stofnaður 1957. Meðal fyrstu nafna
hefðu verið nöfn Jakobs og Grethe og voru þau félagar í klúbbnum á
meðan þau höfðu þrek til. Hann sagði enn fremur að staða klúbbsins
hefði verið veik 1967 og þá hefði verið reynt að stofna fulltrúaráð. Tólf