Andvari - 01.06.2011, Page 78
76
ÓLAFUR ÁSGEIRSSON
ANDVARI
Er þetta hvatningarbréf Jóns innfært sem fyrsta skjal í Gjörðabók Þjóðvina-
félagsins þannig að hann hefur sjálfur litið á það sem fyrstu tildrög að stofnun
félagsins.
Suður-Þingeyingar tóku upp keflið vorið 1870 með Tryggva Gunnarsson
alþingismann og kaupstjóra Gránufélagsins í fararbroddi. Tryggvi dvaldi
tíðum vetrarlangt í Kaupmannahöfn. Gerðist hann mjög handgenginn Jóni
Sigurðssyni og kynntist vel högum hans. Má segja að hann hafi nánast tekist
á hendur að gerast sérlegur fjáröflunarstjóri forseta. Ritaði hann ýmsum um
samskot til handa Jóni vorið 1870 en heimtur urðu tregar. Tryggvi bar sig
saman við Einar Ásmundsson í Nesi fyrir vorfund Búnaðarfélags Suður-
Þingeyinga. Tryggvi segir svo frá löngu síðar að þeir hafi komið sér saman
um að bera upp á fundinum, „þó ekki samskotabeiðni, það myndi rýra álit
Jóns hjá almenningi og særa höfðingslund hans sjálfs“ heldur tillögu um
stofnun framfarasjóðs eða félags „til þjóðheilla“ er yrði öllum opið gegn
vægu árstillagi.7 Fengu þeir Tryggvi og Einar til liðs við sig Jón Sigurðsson
á Gautlöndum til að serrvja drög að lögum félagsins, sem urðu síðan stofn að
lögum Þjóðvinafélags. Á fundinum var samþykkt að stofna sjóð „er varið
skyldi til að efla málstað íslendinga í stjórnarmálinu,“ eins og það var orðað í
fundargerð.8 Félagsskapurinn, sem hið öfluga þríeyki Þingeyinga vildi hrinda
úr vör, var þó ekki einvörðungu hugsaður sem umbúðir utan um samskot
til Jóns forseta, eins og ráða mætti af þessari frásögn Tryggva löngu síðar,
heldur tók hann mið af markmiðum og skipulagi Selskapet for Norges Vel,
sem þeir skírðu „Þjóðheillafélag Norðmanna“ en Jón Sigurðsson kallaði
„Velfarnaðarfélag Noregs“. Þetta Framfarafélag Noregs var stofnað árið 1809
til að gæta hagsmuna Norðmanna innan Danaveldis og vinna að framförum
þjóðarinnar. Náði það brátt útbreiðslu um land allt og varð nánast ríki í ríkinu,
einkum á tímum siglingateppu í Napoleonsstríðunum. Félagsmenn söfnuðu
meðal annars fyrir stofnun háskóla í Christianiu og studdu við lýðfræðslustarf
Wergelands. Det Kongelige Selskab for Norges Vel er eins og Þjóðvinafélagið
enn starfandi sem menningarfélag.
Stefnumið hins norska framfarafélags féllu vel að framsækinni hugmynda-
fræði Þingeyinganna. Einkum tók Jón á Gautlöndum málið upp á sína arma
og ritaði í blöðin um nauðsyn stofnunar framfarafélags á landsvísu.9 Hann var
síðan í laganefndum Þjóðvinafélags bæði 1871 og 1873; og honum var falið að
halda aðalræðuna á þjóðhátíðinni sem Þjóðvinafélagið hélt á Þingvöllum 1874
þar sem nafni hans var fjarverandi eins og alræmt er orðið.
Jón Sigurðsson alþingisforseti hafði einnig sagt fyrir um skipulag líkt því
sem Þjóðvinafélagið tók upp þegar hann mælti fyrir samtökum um það sem
hann nefndi „Landsjóð undir umráðum landsmanna sjálfra“ í Nýjum félags-
ritum árið 1862.10 Eitt af meginstefjum í málflutningi Jóns var að íslendingar
þyrftu að sýna að þeir kynnu að sameina krafta sína til nytsamra fyrirtækja