Andvari - 01.06.2011, Side 105
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
/
A höttunum eftir Hemingway
Ummerki, áhrif, þýðingar
Ritiðjan er, þegar best lætur, einmanalegt líf. Samtök rithöfunda milda einsemd
rithöfundarins, en ég efast um að þau bæti ritlist hans. Þegar hann afsveipast
einsemdinni vex opinber ásýnd hans og oft hrakar verkum hans. Því að hann sinnir
starfi sínu einn og ef hann er nógu góður rithöfundur verður hann að standa frammi
fyrir eilífðinni, eða vöntun hennar, á hverjum degi!
Þessi orð eru tekin úr ræðunni sem Ernest Hemingway sendi frá heimili sínu
á Kúbu árið 1954 og lesin var upp við Nóbelsathöfnina í Stokkhólmi þegar
honum voru veitt virtustu bókmenntaverðlaun heims. Fjarveru hans mætti
túlka sem dæmi um að hann hafi ekki viljað afsveipast einverunni og stíga inn
á svið Nóbelshátíðarinnar (þótt sjálfur hafi hann borið fyrir sig heilsubresti).
Á hinn bóginn var raunar vandfundinn sá rithöfundur á heimsvísu sem hafði,
tilneyddur og sjálfviljugur, helgað sér fastari sess í sviðsljósinu.
Sviðsetning
Orð Hemingways í Nóbelsávarpinu um einveru og opinbera ásýnd eru til
vitnis um öfl sem toguðust á um hann sjálfan, manninn sem var sannfærður
um lífsnauðsyn ritstarfanna, með allri þeirri einbeitingu og einveru sem það
kostaði. Sami maður virðist þó hafa þrifist á því að ástunda ævintýralegt
líferni sem hann fór ekki dult með og ljómi þess átti og á enn stóran þátt
1 frægð hans. Hemingway var rithöfundurinn sem stundaði stórfiskaveiðar
í Karíbahafinu, villidýraveiðar í Afríku, heillaðist af nautaati (einu list-
greininni þar sem listamaðurinn er stöðugt í lífshættu, sagði hann), og ekki
síst hafði hann gaman af áfengisdrykkju í góðum hópi - og var jafn kapp-
samur við hana sem aðra leiki og lystisemdir. Miklum sögum fór af ýmsu
sem Hemingway lenti í um dagana, svaðilförum og átökum, og átti hann
ekki síst sjálfur þátt í að koma slíkum sögum í umferð. Þótt hann segðist vera
feiminn, naut hann þess oft að vera hrókur alls fagnaðar og fór þá mikinn í
ýkjufrásögnum af sjálfum sér (til dæmis um frækni sína í hnefaleikum), og
virðist hann hafa búið yfir miklum sannfæringarkrafti í gjörningslist hinnar