Hugur - 01.01.2008, Blaðsíða 104
102
Olafur Páll Jónsson
því menntun - eiginleg menntun að mati Kants - verður að hafa siðferðilega vídd.
I samræmi við þetta segir hann:
Siðferði verður að byggjast á meginreglum [þ. Maximen\, ekki aga. Hið
síðara kemur í veg íyrir ósiði, hið fyrra byggir upp hugsun. Við verðum
að sjá til þess að barnið venjist því að breyta eftir meginreglum en ekki
eftir tilfallandi ástæðum.16
Undir lok bókarinnar fjallar Kant svo m.a. um skyldur barnsins gagnvart sjálfu sér
og segir þá:
[Skyldur barnsins gagnvart sjálfu sér] felast ekki í því að klæðast fínum
fötum, að borða ríkulega málsverði, og svo framvegis, þótt allt þetta skuli
vera snyrtilega tilreitt. Þær felast ekki í að leita eftir fullnægju langana og
hneigða; því barnið á þvert á móti að vera hófsamt og nægjusamt; heldur
að í kjarna mannsins býr ákveðin tign, sem hefur hann yfir aðrar skepnur,
og skylda barnsins er að breyta þannig að það afneiti ekká þessari tign
mennskunnar í sinni eigin persónu.17
Samkvæmt hugmyndum Kants er enginn sannmenntuð manneskja án þess að
vera hugsandi manneskja, og enginn verður réttnefnd hugsandi manneskja öðru
vísi en að vera siðferðileg manneskja. Siðferði og menntun eru tengd órofaböndum,
ekki þó þannig að siðferðið sé afleiðing af menntun - t.d. með því að manneskja
sem menntast hafi tilhneigingu til að verða siðferðileg, eða að samfélag menntaðra
manna hafi tilhneigingu til að verða siðferðilegt samfélag - heldur er enginn
möguleiki á að verða menntuð manneskja öðru vísi en að verða siðferðileg mann-
eskja. Tengsl menntunar og siðferðis eru ekki orsakatengsl heldur röktengsl. En
fræðsla og færni - það að safna þekkingu, þjálfa minnið, jafnvel þjálfa skilninginn
og dómgreindina - hafa ekki nein röktengsl við siðferðið.
Eg hef dregið upp mynd af hugmynd Kants um menntun, mynd sem gerir
raunar ekki einfaldan greinarmun á menntun annars vegar og fræðslu hins vegar,
heldur mun margþættari og blæbrigðaríkari greinarmun á ólíkum þroska- og
þekkingarmiðum. Það er vitanlega ýmislegt í hugmyndum Kants um menntun og
sambandi hennar við siðferðið sem er umdeilt, en þær sýna, með nokkuð skýrum
hætti, hvernig gera má greinarmun menntunar og fræðslu í smáatriðum og útfæra
hann í frumspekilegu og siðfræðilegu samhengi. Sá sem efast um þann tiltölulega
einfalda greinarmun menntunar og fræðslu sem ég reiddi mig á í gagnrýni minni
á stefnuleysi stjórnvalda, verður að færa rök fyrir því að hvorki greinarmunur Kants
né annar viðlíka greinarmunur fái staðist.
16 Sama rit, s. 480.
17 Sama rit, s. 488.