Hugur - 01.01.2008, Blaðsíða 137
Hugsað með Ólafi Páli
135
kostnaður, það er alltaf fórnarkostnaður, maður fær ekkert fyrir ekkert.“ I
stríði er líf saklausra borgara líka fórnarkostnaður - og huggunarorðin eru
þau sömu. En rétt eins og stríðin í útlöndum, þá hefiir hernaðurinn gegn
náttúru Islands vakið reiði og sárindi sem huggunarorðin um fórnar-
kostnaðinn hafa ekki náð að sefa (9).
Það er ástríða og sannfæringarhiti í þessum orðum, en líka djúp vonbrigði og ef
til vill brot af þeirri reiði og sárindum sem orðin vísa til. Orðin sem Ölafiir Páll
velur hér bera þess fyrst og fremst vitni hve mikið hjartans mál íslensk náttúra er
honum og hve nærri sér hann tekur það að gildi hennar sé ekki metið sem skyldi.
Nú kynni einhver að benda á að svo tilfinningaþrungin afstaða höfundar til um-
fjöllunarefnis síns hljóti að grafa undan trúverðugleika fræða hans. Slík gagnrýni
á að mínum dómi ekki rétt á sér, að minnsta kosti ekki þegar á heildina er litjð.
Vissulega beitir Ólafur Páll annað slagið sterku líkingamáli, eins og þegar hann
vísar til náttúru íslands með því að segja: „Undanfarin ár hefur verið gengið í
skrokk á einum af mínum bestu vinum. Og það er enn verið að. Það er gert með
skipulegum hætti en þó í nokkrum flýti. Til stendur að hmlesta hann.“ (185) Það
er umdeilanlegt hvort réttlætanlegt sé að líkja framkvæmdum á hálendi Islands
við limlestingar. Hæglega má halda því fram að slík myndhverfing hjálpi okkur
hvorki að skilja þýðingu náttúruspjalla né ofbeldis á fólki. Sem betur fer dettur
engum í hug enn sem komið er að líta ákvarðanir stjórnvalda um Kárahnjúka-
virkjun sömu augum og ef ríkisstjórnin hefði boðið út alvarlegar misþyrmingar á
völdum einstaklingum. A hinn bóginn verður að hafa í huga að líkingar eru lík-
ingar og myndhverfingar eru myndhverfingar; þeim er ætlað að draga fram visst
einkenni á fyrirbæri með því að líkja því við annað fyrirbæri sem allir vita að er að
öðru leyti óskylt og ólíkt. Það þarf því ekki að vera út í bláinn að tjá hugsanir sínar
og tilfinningar andspænis umturnun stórra óspilltra landssvæða með því að líkja
því við illa meðferð á vini. Hvort sem við erum sammála eða ósammála Ölafi Páli
þá getum við öll sem málnotendur skilið í senn nytsemi og takmarkanir þess að
taka svo til orða - á svipaðan hátt og við skiljum til dæmis öll að það þarf enginn
að hafa verið barinn þegar sagt er að enginn verði óbarinn biskup.
Raunar tekst Olafi Páli ágætlega að sýna fram á hvernig það fer saman að setja
fram tilfinningalega afstöðu til viðfangsefnisins, en leggja sig jafnframt fram um
að fjalla um það á skýran, málefnalegan og rökstuddan hátt. Þetta er eitt af því sem
gefur bók hans úðfrœðilegt gildi. Sjálfur orðar Ólafur þessa tvíþættu viðleitni sið-
fræðinnar ágætlega þegar hann segir:
Skuldbindingar okkar og gildismat eru þær forsendur sem liggja til
grundvallar okkar eigin tilveru - athöfnum okkar og lífssýn. Sem for-
sendur eru þessi atriði oft dulin og birtast ekki nema með óbeinum hætti
í breytni okkar. Þannig eru forsendur gjarnan. En þótt forsendur fari
leynt, eru þær ekki ónæmar fyrir gagnrýninni rannsókn, og sá sem vill lifa
ígrunduðu lífi - sá sem vill vera sjálfstæður einstaklingur - verður að taka
þessar forsendur til rannsóknar (45).