Hugur - 01.01.2008, Blaðsíða 92
90
Stefán Snœvarr
geti kallast „félagslegt landslag“). Einnig „máli“ félagsfræðingar „portrett“, t.d hafi
Marx málað „portrett" af borgurum og verkamönnum, Weber af skrifráðungum,
en báðir notað orð við þá iðju. Svipuð „portrett" má finna bæði hjá málurum og
rithöfundum. Gott dæmi er þýska nóbelsskáldið Thomas Mann sem dró upp
myndir í orðum af velstæðum þýskum borgurum sem einatt vesluðust upp á
heilsuhælum.'5
Rétt eins og málarar reyni félagsfræðingar að sýna hreyfingu, þ.e. þróun sam-
félagsins. Stundum beiti þeir blekkingum rétt eins og málarar sem nota sjón-
hverfingar, blekkja okkur til að sjá hreyfingu á kyrrstæðum fleti. Hinn kyrrstæði
flötur félagsfræðinnar er sá mýgrútur atburða og athafna sem þeir vilja sýna sem
liði í framþróun (Nisbet 1976). Efnahagsþróun er einmitt eitt af viðfangsefnum
hagfræðinga og sjálfsagt beita þeir sjónhverfingum líka.
Gallinn við kenningar Nisbets er m.a. sá að hann ofreynir sig ekki við að rök-
styðja þær. Einnig eru samlíkingar hans sumar hverjar dálítið langsóttar.Til dæmis
eru kenningar um þróun sértækar og skynsemisatriði. Sjónhverfing aftur á móti
er konkret og skynjunaratriði. Það er ekki sjálfljóst að þessi fyrirbæri eigi eitthvað
mikilvægt sameiginlegt. Það er heldur ekki sjálfljóst að viðfang hagfræðinnar og
textar hafi mikilvæga snertifleti. Samt tel ég mig hafa leitt margþætt og sæmilega
góð rök að þeirri kenningu.
Lokaorð
Hvað sem öðru líður þá höfum við uppgötvað í þessari grein að hagfræðin getur
tæpast talist lögmálsskýrandi fræðigrein. I fyrsta lagi eru lögmálsskýringar hennar
oft sjálfsögð sannindi. I öðru lagi eru meint lögmál hennar hreint ekki járnhörð
heldur frávíkjanleg. I þriðja lagi er forspárgildi þeirra lítið, en mikið forspárgildi
er aðall alvöru lögmálsskýringa. I fjórða lagi geta þær fáu forspár sem ræst hafa
ekki talist stærðfræðilega nákvæmar. I fimmta lagi virðast hinar örfáu sæmilega
velheppnuðu lögmálsskýringar ekki mynda heildrænt stigveldi gagnstætt lögmáls-
skýringum náttúruvísindanna.
Skilningshagfræðin gæti verið lausn á þessum vanda. Frænka hennar, túlkun-
arhagfræðin, vill snúa faðirvori austurríska hagfræðiskólans upp á túlkunarfræði
en er svolítið hughyggjuleg við þá bænagjörð. Skilningshagfræðingurinn er minna
fyrir hugann og meira fyrir breytnina. Hann lítur á samfélagið sem vef virknis-
hátta, hugtaka og reglna og veit að þennan vef er ekki hægt að skilja öldungis
hlutlægum skilningi. Skilningur manna á hugtökum og reglum er nauðsynleg
forsenda félagslegs atferlis; breytni stjórnast af tilefnum, ekki af orsökum. Þess
vegna verður samfélagið ekki skilið með fulltingi lögmálsskýringa einna. Að
breyttum breytanda gildir slíkt hið sama um efnahagslífið en því gerir skilnings-
hagfræðingurinn sér ekki of mikla rellu út af lögmálsskýringum. Hann túlkar
atferli manna, greinir hugtök og reglukerfi í krafti (sýndar)þátttöku sinnar í hag-
25 Eg vísa hér til skáldsögunnar Töfrajjallið (Der Zauberberg).