Hugur - 01.01.2008, Blaðsíða 102
100
Olafur Páll Jónsson
og stærðfræði, en gott vald manns á þessum greinum, á reikningstækni
þeirra, er engin trygging fyrir viturlegri eða frumlegri hugsun. Það er ekki
einu sinni trygging fyrir almennri, heilbrigðri skynsemi.12
Þorsteinn er ekki að amast við fræðslu, öðru nær. Fræðslan, helst í formi tæknilegrar
þjálfunar, er eitt af aðalsmerkjum fræðanna að hans mati. En skólinn getur ekki
einskorðað sig við fræðslu, hvorki leikskóli, grunnskóli, framhaldsskóh né háskóh.
Meinið er að menntun og fræðslu er slegið saman, og þar með renna mennta-
markmiðin saman við fræðslumarkmiðin og ágætir mælikvarðar á árangur í
fræðslu verða að mælikvörðum á menntun - og afleitir sem sh'kir.
Skýring Páls á því hvers vegna menntakerfinu hafi verið stjórnað stefnulaust um
leið og það stefndi stjórnlaust út í bláinn var einmitt þessi samsláttur fræðslu og
menntunar, hins tæknilega og þess sem ekki getur með nokkru móti verið tækni-
legt.
Menntakerfið íslenska er fyrst og fremst réttnefnt fræðslukerfi, sem
merkir einfaldlega að menntunin, sem það veitir, er fólgin í tiltekinni
kunnáttu. I skólum eiga nemendur að læra. Þeir eiga að læra að lesa, skrifa
og reikna og öll önnur fræðsla byggir á þessum grunni. Og það sem er
óumdeilt - en er hins vegar umdeilanlegt [...] - er að öll fræðslan sé og
eigi að vera menntandi, þ.e.a.s. eigi að stuðla að þroska nemenda, gera þá
hæfari sem manneskjur til að heyja lífsbaráttuna og njóta lífsins. (340)
Það sem Páll segir að sé umdeilanlegt - þótt það virðist óumdeilt í samfélaginu
— er tiltekinn skilningur á sambandi menntunar og þess hvernig skólahaldi er
háttað. Þetta er skilningur sem virðist leggja menntun að jöfnu við fræðslu. I al-
mennum hluta Aðalnámskrár grunnskóla birtast að ýmsu leyti aðlaðandi hug-
myndir um skólahald en meinið er að þær hugmyndir leiða ekki til þess „að mótuð
sé áætlun um námsefni, um kennsluaðferðir og aga, um námsgögn og búnað og
félagslegt skipulag skólans“ eins og Dewey orðar það. Það er nær lagi að sega að
sú menntahugmynd sem birtist í almennum hluta Aðalnámskrár grunnskðla sé í
beinni andstöðu við þá áherslu sem er á stífa markmiðasetningu og mælingar, sem
birtist reyndar strax í almenna hlutanum en er svo útfærð nánar í greinahlutum
námskrárinnar.
Sá greinarmunur á menntun og fræðslu sem ég hef fengið að láni hjá Þorsteini
Gylfasyni og Páli Skúlasyni er grundvöllur þeirrar gagnrýni minnar að engin
menntastefna sé við lýði á Islandi. En er þessi greinarmunur nógu skýr til að bera
uppi svo alvarlega og afgerandi gagnrýni? Svarið við þessari spurningu er ekki
einfalt þar sem sérhver ígrunduð hugmynd um menntun og fræðslu hlýtur að vera
margvíslega samofin hugmyndum um mannlega náttúru, þroskaleiðir mannsins
og samband hans við umheiminn. Og hugmyndir manna um þessi efni, ekki bara
í heimspeki heldur einnig í öðrum greinum vísinda og fræða, eru umdeildar.
12 Þorsteinn Gylfason, „Að hugsa á íslenzku", Skírnir 147 (1973), endurprentuð í slð hugsa á
(s/enzku, Reykjavík: Heimskringla 1996.