Tímarit Máls og menningar - 01.05.1985, Side 43
Ilmur af nafni rósarinnar
að teikningunni? Ja, kannski enginn, kannski byggingarmeistarinn sjálfur,
en altént er engin önnur teikning hugsanleg: veröldin eins og hún er hefur
alla möguleikana að geyma. Adso trúir því líka að því er virðist að
einhyrningar gætu ekki orðið til (297). Þessa grísku hugmynd urðu hinir
kristnu heimspekingar miðalda að sætta við gyðinglega hugmynd um Guð í
líkingu við voldugan konung sem deilir og drottnar. Almœtti Guðs er þetta
kallað á fræðimáli. Sá sem á engra kosta völ hefur ekki mikinn mátt og völd.
Og ef Guð hlaut að skapa einmitt þann heim sem hann skapaði ásamt
endanlegum lögmálum hans, þá virðist sem hann hafi ekki átt neinna kosta
völ og almættið þar með að engu orðið. Ymsar leiðir voru reyndar til að
koma þessum hugmyndum heim og saman. Ockham hins vegar afgreiðir
málið með því að hafna hinni grísku hugmynd með öllu. Hann lætur sér
ekki nægja að segja að Guð skapi sjálfur hugmyndir sínar, heldur gengur
hann skrefi lengra og neitar því að Guð hafi nokkrar hugmyndir sem séu
einhvers konar milliliður milli hans sjálfs og sköpunarverksins. Þetta er
baksvið þeirrar staðhæfingar Vilhjálms af Baskerville að regla í alheiminum
„myndi brjóta í bága við hinn frjálsa vilja Guðs og almætti hans“ (459). Svo
aftur sé stuðst við líkingu má segja að Guð Ockhams og Vilhjálms af
Baskerville sé eins og hljómlistarmaður sem spinnur tónverkið upp úr sér
um leið og hann spilar. Veröldin sjálf er tónverkið.
Þetta er róttæk hugmynd. Svo róttæk að þegar Adso heyrir hana dregur
hann guðfræðilega ályktun í fyrsta og eina skiptið á ævinni: „En hvernig
ætti að geta verið til nauðsynleg vera sem væri algerlega ofin af mögu-
leikum? Hvaða munur er þá á Guði og hinu upprunalega kaosi? Að halda
fram takmarkalausu almætti Guðs og takmarkalausu valfrelsi hans, jafngild-
ir það ekki því að sanna að Guð sé ekki til?“ spyr vesalings Adso (459). Við
þessu fær hann ekkert skýrt svar, og lesandinn aðeins torræð tákn.
I framsetningu Ecos í þessum kafla hljómar afneitun Vilhjálms á algildum
náttúrulögmálum eins og hann sé að neita því að það sé í raun nokkur regla í
tilverunni. Við komumst að vísu ekki hjá því að ætla heiminum reglufestu
og með því að gera það getum við komist að ýmsum sannindum. En það er
blekking að það séu einhverjar reglur. Eco lætur Vilhjálm vitna í þýskan
dulhyggjumann: „Reglan sem hugur okkar ímyndar sér er eins og net, eða
eins og stigi, sem maður smíðar sér til að ná einhverju. En á eftir verður
maður að kasta stiganum, vegna þess að maður uppgötvar að, enda þótt
hann hafi komið að gagni, var hann sjálfur meiningarlaus." (459) Þessa stiga-
líkingu er að finna með svipuðu orðalagi hjá austurríska heimspekingnum
Ludwig Wittgenstein (1889—1951) í Tractatus logico-philosophicus, þar sem
Wittgenstein segir þetta um sínar eigin setningar í sama verki. 13 Hana er líka
að finna hjá meistara efahyggjunnar, Sextusi Empiricusi (2.-3. öld).
177