Tímarit Máls og menningar - 01.05.1985, Side 101
Úrvinnsla orðanna
mot veggen i dette huset, kjende hjarta pumpe hennar eige blod dit som
veggpussen avgrensa rommet hennar i tilværet. (68)
I þýðingunni leggur hún aðeins annan lófann á vegginn, og er sú villa
áréttuð með eintölunni „neven“ sem þýðandi hefur bætt við til frekari
skýringar. Stellingar konunnar eru því aðrar í þýðingunni en í frumtextan-
um, og snertingin við steininn verður ekki eins mikil. Síðan blandar hann
saman orðunum fyrirstöðu og viðstöðu og þýðir „viðstöðulaust“ sem
fyrirstöðulaust í stað stanslaust, og verður myndin þannig heldur betur
ósamkvæm sjálfri sér. Ekki hefur þýðandi heldur skilið þá fantasíu textans
sem lætur taugar og æðar liggja út í veggi á húsi og þannig sameinast lögnum
þess, því að hjá honum liggja þær ekki lengra en að veggnum. I samræmi við
það er það ekki steypan og þar með veggurinn sjálfur sem markar konunni
rúm í tilverunni, heldur aðeins pússningin. Sú mynd sem þýðingin gefur er
því alveg þveröfug við mynd frumtextans, þar sem hún sýnir aðgreiningu
konu og húss í stað samruna þeirra.
Klifanir
I tilvitnuninni hér að framan talar Svava um fantasíuna sem leið „til að brjóta
niður föst orðatiltæki í málinu sem fleyta viðstöðulaust áfram hefðbundinni
hugsun“. Þetta gerir hún í Leigjandanum með því að tefla í sífellu saman
lýsingum fantasíunnar á innri veruleika konunnar og þeim klifunum tungu-
málsins sem hún hugsar í. I Leigjandanum fer í rauninni fram svo mikil
umræða um samband tungumáls og veruleika, að segja má að í því felist eitt
megininntak verksins. Kemur þetta fram bæði í efni og formi.
Það er freistandi að tengja þessa umræðu Leigjandans um tungumálið við
eftirfarandi orð Svövu um það vandamál kvenrithöfunda að koma kvenlegri
reynslu til skila í gegnum hefð og tungumál sem mótast hafa af karl-
mönnum.
I þessu sambandi hef ég búið mér til þá kenningu til heimabrúks að það sé
úrvinnsla efnisins, orðanna, sem sé röng, þegar við dettum í þá gryfju að
tileinka okkur reynslu karlmanna, en orðin sjálf sviki ekki. Orðin eru jafn-
upprunaleg uppspretta fyrir konur og þau eru fyrir karla, og þær mega því
ekki láta sér nægja það sem þeim hefur verið sagt um orðin — þær verða
sjálfar að skoða orðin.9)
Konan í Leigjandanum er í svipaðri stöðu gagnvart tungumálinu og
kvenrithöfundarnir sem Svava talar um, en hún leitast ekki við að vinna úr
orðunum, heldur lætur sér nægja það sem henni hefur verið sagt um þau.
Þessi kona er alltaf að hugsa um orð og setningar, sem hún trúir á og tekur
235